Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Afvopnunarráðstefna á Íslandi í haust

12.07.2018 - 15:57
Erlent · Innlent · NATO · Stjórnmál
Mynd með færslu
 Mynd: RUV/Jori Van de Vyver
Ísland verður vettvangur afvopnunarráðstefnu á vegum Atlantshafsbandalagsins í haust en leiðtogafundi bandalagsins lauk í dag. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra sóttu fundinn fyrir Íslands hönd ásamt sendinefnd.

Í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu vegna loka fundarins kemur fram að Ísland hýsi afvopnunarráðstefnu undir merkjum NATO með haustinu.

Fulltrúum ICAN, Samtaka gegn kjarnavopnum, verður boðið að taka þátt í viðburði tengdum ráðstefnunni, „enda er mjög mikilvægt að samtal eigi sér stað milli ríkja Atlantshafsbandalagsins og þeirra grasrótarsamtaka sem hafa staðið fremst í flokki í baráttunni fyrir afvopnun“, að því segir í tilkynningunni.

Katrín fundaði með fulltrúum samtakanna í Brussel þar sem leiðtogafundurinn fór fram. Þau hlutu friðarverðlaun Nóbels í fyrra fyrir ötula baráttu sína gegn kjarnavopnum.