Afturelding í annað sætið eftir fyrsta sigurinn á árinu

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Afturelding í annað sætið eftir fyrsta sigurinn á árinu

22.02.2020 - 20:55
Afturelding jafnaði Hauka að stigum í næst efsta sæti Olís-deildar karla í handbolta er Mosfellingar höfðu betur í leik liðanna að Ásvöllum í kvöld. Sigur Aftureldingar er sá fyrsti hjá liðinu í deildinni á árinu en tap Hauka er þeirra fjórða í röð.

Haukar misstu toppsæti deildarinnar í hendur Valsmanna í síðustu umferð en þeir höfðu tapað þremur leikjum í röð fyrir leik kvöldsins. Mosfellingar voru í öðru sætinu yfir hátíðarnar en hafa ekki unnið leik í deildinni á nýju ári. Bæði lið þurftu því á sigri að halda.

Leikurinn var jafn í upphafi en staðan var 6-5 fyrir gestina úr Mosfellsbæ um miðjan síðari hálfleik. Í kjölfarið hrundi sóknarleikur Hauka sem skoruðu aðeins eitt mark á næstu tíu mínútum. Mosfellingar skoruðu sex á sama tíma og komust því sex mörkum yfir, 12-6. Munurinn í leikhléi var fimm mörk 13-8 fyrir Aftureldingu.

Afturelding komst mest sex mörkum yfir í síðari hálfleik en Haukar komu til baka í lokin. Endurkoman hófst hins vegar of seint og tveggja marka sigur Aftureldingar staðreynd, 24-22.

Guðmundur Árni Ólafsson skoraði átta mörk fyrir Mosfellinga í kvöld en Birkir Benediktsson og Tumi Steinn Rúnarsson fimm hvor. Adam Haukur Baumruk og Ólafur Ægir Ólafsson voru markahæstir Hauka með fimm hvor.

Með sigrinum jafnar Afturelding Hauka að stigum með 25 stig í 2.-3. sæti, stigi á eftir toppliði Vals. FH er með stigi minna í fjórða sætinu og þá er Selfoss með 23 stig í því fimmta.