Afþakka aðstoð danskra slökkviliðsmanna

09.01.2020 - 16:17
epa08042711 Firefighters work to contain a fire as it encroaches on properties near Termeil, New South Wales, Australia, 03 December 2019 (issued 04 December 2019). According to media reports, more than 100 fires were burning across the state of New South Wales on 03 December, with more than 50 of them still uncontained.  EPA-EFE/DEAN LEWINS  AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA-EFE - AAP
Stjórnvöld í Ástralíu hafa afþakkað aðstoð fimmtíu slökkviliðsmanna frá Danmörku við að berjast við gróðurelda sem hafa brunnið mánuðum saman. Trine Bramsen varnarmálaráðherra greinir frá þessu í fréttatilkynningu.

Að sögn ráðherrans eru Ástralar afar þakklátir Dönum fyrir boðið, en afþakka aðstoðina. Best sé að staðkunnugir berjist við eldana. Bramsen segir að tilboðið standi, þótt því hafi ekki verið tekið að sinni.

 Safna fé til styrktar Áströlum

Á síðustu tveimur sólarhringum hafa safnast í Danmörku 700 þúsund danskar krónur til aðstoðar fórnarlömbum gróðureldanna í Ástralíu, bæði fólki og dýrum. Það eru yfir þrettán milljónir íslenskra króna. Rauði krossinn og Alþjóðanáttúruverndarsjóðurinn í Danmörku hafa veitt fénu viðtöku. Bo Øksnebjerg, stjórnandi þess síðarnefnda, segist aldrei hafa kynnst annarri eins gjafmildi. Greinilegt sé að Dönum sé brugðið við að sjá fréttamyndir frá Ástralíu, ekki síst þjáningar dýra sem geta enga björg sér veitt.

Að sögn Rauða krossins var það fyrir þrýsting frá almenningi sem ákveðið var að standa fyrir fjársöfnun vegna hremminganna í Ástralíu. Féð sem Rauði krossinn hefur safnað verður meðal annars notað til kaupa á drykkjarvatni og til að aðstoða fólk við að koma sér upp þaki yfir höfuðið að nýju. Alþjóðanáttúruverndarsjóðurinn hyggst styrkja fólk sem bjargar dýrum úr eldinum, þar á meðal kóalabjörnum, og að bæta lífsskilyrði dýranna eftir að eldarnir hafa verið slökktir.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi