Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Afstöðulaus endursýning

Mynd: Þjóðleikhúsið / Þjóðleikhúsið

Afstöðulaus endursýning

25.02.2020 - 19:50

Höfundar

Karli Ágúst Þorbergssyni gagnrýnanda er spurn hver sé ástæða þess að Þjóðleikhúsið ákveði að segja sögu tæplega 50 ára gamallar bíómyndar á sviði, í nánast óbreyttri mynd í leikverkinu Útsending. „Er það til þess að endurtaka sögu sem sló í gegn annars staðar í þeirri von um að hún slái í gegn hér? Er það þá gróðasjónarmið sem ráða ríkjum, sömu gróðarsjónarmið og er verið að gagnrýna í sýningunni sjálfri?“

Karl Ágúst Þorbergsson skrifar:

Sýningin Útsending, sem frumsýnd var 21. febrúar í Þjóðleikhúsinu, er leikgerð bandarísku óskarsverðlaunamyndarinnar Network frá árinu 1976. Sagan segir frá fréttaþulinum Howard Beale sem er rekinn vegna lélegs áhorf og tilkynnir í kjölfarið í beinni útsendingu að hann ætli á fremja sjálfsmorð í sjónvarpsal. Verkið talar beint inn í samtíman og tekst m.a. á við hugmyndir um miðlun sannleika og falsfrétta, græðgisvæðingu, hagsmuni og valdabaráttu og hinn raddlausa meirihluta sem er búinn að fá nóg af yfirgangi elítustéttarinnar. En um leið er að finna dramatíska sögu persónanna sem reyna að átta sig á brothættri tilveru sinni. Þó svo að sýningin reyni að ná utan um þessa tvo megin þætti verksins þá vakna spurningar um listræna afstæðu, bæði hvað varðar hugmyndafræði og fagurfræði.

Sterkasta hlið verksins er sagan, það er sú saga sem sögð er aftur, saga kvikmyndarinnar. Ádeilan á hugmyndina um sannleikann og miðlun hans í gegnum sjónvarpið. Þar er möguleikinn á tengingu við samtímann, það er líklega skýrasta ástæða þess að National ákvað að taka þetta verk upp í dag, í Bretlandi og Bandaríkjunum. Vegna þess að leiðarstef Beale, ég er að springa úr reiði og ég er búinn að fá nóg!, er leiðarstef stjórnmálamanna sem fara einstaklega frjálslega með sannleikann til þess að tryggja völd sín og mátt en um leið höfða til hvata kúgaðra samfélagshópa til þess að standa gegn kerfinu. En þó eru það þeir, stjórnmálamennirnir sem eru helstu ástæður þess að þessir sömu hópar eru kúgaðir og afskiptir. Svona orðræðu má finna hjá Piers Morgan, Jordan Peterson, Donald Trump, Boris Johnson, Sigmundi Davíð og fleirum og fleirum og fleirum. May you live in interesting times og allt það. Falsfréttir koma beint inn í þetta, myndin er í raun eins konar fyrirboði um samfélag sem síðan varð raunveruleiki, nú tökum við jafnmikið og stundum meira mark á falsfréttum en sannleik. Markmiðið er augljóst, að skapa glundroða, að tortryggja lýðræði og mannréttindi, með vald og fjárhagslega hagsmuni fárra að leiðarljósi.

Þetta vitum við, þetta er augljóst. Þetta höfum við vitað í tölverðan tíma. Í það minnst frá því að myndin Network var sýnd. Það er því alveg skiljanlegt að það sé löngun til þess að endurtaka þau skilaboð sem felast í myndinni. En það sem er minni skiljanlegt eru sú leið að endurtaka þau nánast óbreytt frá myndinni, og enn fremur sem eins konar kópíu af sýningu National Theatre. Breska og Bandaríska samhengi sýningarinnar er allt annars eðli en hér á Íslandi. Þar er hliðrun sannleikans orðinn samvaxinn hversdagslegu lífi borgaranna og hefur skapað gríðarlega mikið bil milli ólíkra hópa samfélagsins, nánast óbrúanleg bil. Rót þeirrar öfgakenndu og sturluðu samfélagssýnar sem byggir á lygum, óttastjórun og valdasýki er að finna í róttækri sýn öfgahægrisins í BNA og UK og þar hafa þessi öfl söðlað undir sig æðstu embætti landsins. Þar er fæðingarstaður þessarar hugmyndafræðilegu baráttu og þó svo að við séu hér heimavið að keppast við að gera okkar besta í að kópera hana þá hefur tekist að halda henni í skefjum að einhverju leyti, hingað til í það minnsta. Því brennur spurningin, af hverju að segja þessa sögu akkúrat hér innan okkar samfélagslega samhengis? Er það til þess að endurtaka sögu sem sló í gegn annars staðar í þeirri von um að hún slái í gegn hér? Er það þá gróðasjónarmið sem ráða ríkjum, sömu gróðarsjónarmið og er verið að gagnrýna í sýningunni sjálfri? Leikstjóri sýningarinnar tekur fram í viðtali að stundum búum við til sögur sem eru þess virði að segja aftur einfaldlega vegna þess að þær eru góðar. Gott og gilt, en þá vaknar spurningin um miðlun þessarar sögu. Af hverju að segja sögu tæplega 50 ára gamallrar bíómyndar á sviði, í nánast óbreyttri mynd? Hvað er það við þessa sögu sem gerir það að verkum að við verðum að segja hana með tækjum leikhússins í dag? Sagan skírskotar beinlínis inn í samfélag samtímans en þó...

Er það þá von leikhússins að velgengni leikrits erlendis skili sér sjálfkrafa í velgengni hérlendis? Má vera, en hvernig rímar það við kjarna sögunar sem er verið að segja á sviðinu, sögunnar um græðgisvæðingu?

Það skortir skýra listræna afstöðu til verksins, það er óljóst hver tilgangur þeirra samfélagslegu skírskotana sem er að finna í verkinu er á okkar tímum, í okkar samhengi.

Annar megin þáttur verksins í dramatísk saga persónanna, hvernig þær takast á við gjörðir Howards Beale og þær aðstæður sem skapast út frá þeim. Persóna Howards er eðlilega í forgrunni en saga hans er tragísk, flókin og marglaga. Howard dansar á línu geðrofsástands í kjölfar þess að hafa misst vinnuna og missir í raun trú á samfélagið og þá hugmyndafræði sem það byggir á. Howars lifir nánast í stöðugu tilfinningalegu áfalli en fær eins konar uppreist æru þegar því ástand er hampað þar sem það einfaldlega eykur áhorf og um leið tekjur. Allar persónur verksins takast því á við gríðalega flóknar siðferðilegar spurningar í kjölfar þessa eins og hvort að æskilegt sé að nýta sér taugaáfall eintaklins í nafni gróða, velgengni og valds?

Í sýningunni er hins vegar farin sú leið að miðla frekar tvívíðum erkitýpum, sem eins konar táknum sem þjóna framgangi sögunnar sjálfrar. Það reynist því áhorfendum erfitt að komast inn í hugarheim persónanna og fyrir vikið verður siðferðisleg barátta þeirra innantóm og blæbrigðalaus. Þetta kemur skýrt fram í persónu siðlausa kapítalistans Hackett sem nær ekki að fanga neina samúð áhorfenda þrátt fyrir fall hans í lokin. Eins verða ástæður ástarsambands Max og Diönu óljósar þar sem lítið fer fyrir þeim tilfinningum sem þar eru í spilinu. Það er þó helst að áhorfendur komist inn fyrir hjá persónu Howards. Sú barátta er í raun leiðarstef megin þráður sýningarinnar og því þarf mikið til að hún skili sér ekki í einhverju magni. Þar vofir þó klisjan yfir og hefði mátt kafa enn dýpra til þess að angist hans hafi raunveruleg áhrif á áhorfendur. Í því skyni hefðu leikstjórnarlegar ákvarðanir þurft að vera mun skýrari og í betra samhengi við heildar sýn verksins.

Uppfærsla Þjóðleikhússins á Útsendingu eftir Lee Hall snertir vissulega á áríðandi umfjöllunarefnum í samtímanum en þrátt fyrir það vakna margar spurningar um forsendur, markmið og þá sýn sem býr að baki sýningarinnar. Á heildina litið skortir skýrari listræna afstöðu til megin þátta verksins og einnig hvað varðar miðlunina sjálfa og þá yfirfærslu sem á sér stað frá kvikmynd yfir á svið.

 

 

Tengdar fréttir

Leiklist

„Við erum öll orðin sjónvarpsstjórar yfir eigin lífi“