Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Afstaða í áfengismálum klauf meirihlutann

02.03.2017 - 15:22
Mynd með færslu
Mynd úr safni.  Mynd: Hafnarfjörður
Meirihluti Sjálfstæðisflokksins og Bjartar Framtíðar í Hafnarfirði klofnaði í afstöðu sinni til ályktunar um áfengisfrumvarpið sem nú er til meðferðar á Alþingi. Ályktunin var samþykkt á fundi bæjarstjórnar í gær. Hún var borin upp af hálfu bæjarfulltrúa Bjartar Framtíðar, Samfylkingar og Vinstri Grænna. Einn fulltrúi Sjálfstæðisflokksins sat hjá í atkvæðagreiðslunni.

Fjórir af fimm bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokks greiddu atkvæði gegn ályktuninni, en í henni voru þingmenn hvattir til að hafna frumvarpi um breytingar á lögum um verslun með áfengi.

Í ályktuninni segir meðal annars: „Bæjarstjórn Hafnarfjarðar leggur mikla áherslu á forvarnarstarf og setur í forgang að búa börnum og ungmennum sem best uppvaxtarskilyrði. Heilsa íbúa, hagsmunir og velferð barna og ungmenna eiga að njóta forgangs í allri stefnumörkun. Aukið aðgengi að áfengi og áróður í formi áfengisauglýsinga gengur gegn því sjónarmiði.“

Eftir nokkrar umræður fór svo að ályktunin var samþykkt með sex atkvæðum gegn fjórum. Einn sat hjá. 

Björn Malmquist
Fréttastofa RÚV