Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Afsakið þessi jólalög

Mynd: Stebbi og Eyfi / Facebook

Afsakið þessi jólalög

26.12.2019 - 14:00

Höfundar

Loksins að detta í jól og í tilefni af því förum við yfir vinsælustu jólaslagara jólatímabilsins. Að sjálfsögðu koma jólasveinarnir í Baggalút, Geir Ólafs og jólakóngurinn Björgvin Halldórsson við sögu annars væru varla jól.

Valdimar og fjölskylda - Ég þarf enga gjöf í ár

Valdimar skellti sér af fullum þunga í jólabransann í ár með lagi sínu Ég þarf enga gjöf í ár sem hann frumflutti í þætti Gísla Marteins Vikunni. Hann hélt líka veglega jólatónleika í Hörpu sem voru vel sóttir.


Dagur Sigurðarson - Jólin eru ekkert án þín

Sigurvegari Söngkeppni framhaldsskólanna 2011 sendi Jólin eru ekkert án þín frá sér í lok nóvember og það sló heldur betur í gegn hjá hlustendum. Að venju söng Dagur Sigurðsson lagið sem er eftir Fannar Freyr Magnússon sem annaðist einnig hljóðfæraleik og útsetningu.


Herra Hnetusmjör og Björgvin Halldórsson - Þegar þú blikkar

Herra Hnetusmjör bættist í hóp Jólagestana hans Bjögvins í ár og kom fram með honum á tvennum jólatónleikum í Hörpu núna fyrir jól. Lagið Þegar þú blikkar er eftir Herra Hnetusmjörinn sjálfan Þormóð Eiríksson og Magnús Jóhann Ragnarsson en höfundur texta er Herra Hnetusmjör.


Haukur Heiðar - Okkar Jól

Jólalæknirinn Haukur Heiðar aðalsöngvari, gítarleikari og píanóleikari hljómsveitarinnar Diktu undanfarna áratugi sendi frá Okkar jól í ár. Haukur Heiðar Hauksson syngur auk þess að sjá um bakraddir, píanó og hljóðgervla, Sky van Hof spilar á kassagítar, rafgítar, raftrommur og hljóðgervlar, Jens Dreesen spilar á trommur og Þorbjörn Sigurðsson á bassa.


Stebbi og Eyfi - Jólagleði

Félagarnir Stefán Hilmarsson og Eyjólfur Kristjánsson hafa sungið reglulega saman í tæplega þrjá áratugi og það gerðu þeir líka í ár í Silfurbergi og í laginu Jólagleði. Þeim til aðstoðar voru Þórir Úlfarsson sem spilaði á bassa, gítar og sá um forritun og söngkonan Regína Ósk Óskarsdóttir.


Baggalútur - Afsakið þetta smáræði

Jólakettirnir í Baggalút fylltu Háskólabíó tæplega tuttugu sinnum í ár auk þess að senda frá sér lagið og myndbandið Afsakið þetta smáræði og teljast þar með vera sigurvegarar jólabransans árið 2019 eins og undanfarin ár.


Geir Ólafsson - Stekkjastaur á barnum

Geir Ólafsson var með Las Vegas Christmas Show fjórða árið í röð og fékk bandaríska hljómborðsleikarann Don Randy ásamt hljómsveit hans Quest með sér í það ævintýri og lagið Stekkjastaur á barnum. Lagið er eftir Big Bad Voodoo Daddy en textann samdi Kristján Hreinsson.