Áfrýjunardómstóll leyfir herstjórnarhátíð

31.03.2019 - 01:36
Brazilian marines take part in an operation at the Vila Olimpica shantytown, in the Mare favela complex, in Rio de Janeiro, after heavy shooting on March 12, 2015.  AFP PHOTO / CHRISTOPHE SIMON        (Photo credit should read CHRISTOPHE SIMON/AFP/Getty
 Mynd: AFP/Getty Images - AFP
Jair Bolsonaro, forseta Brasilíu, verður líklega að ósk sinni um að heiðra minningu herforingjastjórnarinnar eftir allt saman. Áfrýjunardómstóll í Brasilíu sneri við úrskurði dómara á neðra dómstigi sem hafði bannað öll hátíðahöld til að minnast þess að 55 ár verða á morgun frá því herforingjastjórnin tók völdin í landinu, og hélt í yfir tvo áratugi.

Ivani Silva da Luz, dómari við undirrétt í Brasilíu, úrskurðaði í gær að minningarhátíð um herforingjastjórnina væri ekki í samræmi við endurreisn lýðræðis í landinu sem skrifuð var í stjórnarskrá landsins eftir að herforingjastjórnin leið undir lok. Í dag sneri Maria do Carmo Cardoso, dómari við áfrýjunardómstól, dómnum hins vegar við. Hún sagði lýðræðið í Brasilíu nógu sterkt til þess að taka við fjölda hugmynda. 

Að sögn AFP fréttastofunnar hófst undirbúningur í vikunni í mörgum herstöðvum til að minnast valdatöku hersins árið 1964. Bolsonaro hefur aldrei farið leynt með aðdáun sína á herforingjastjórninni, en hann var sjálfur í hernum meðan hún var við völd. Hann er jafnframt fyrsti forseti Brasilíu frá því lýðræði var endurreist í landinu árið 1985 sem er opinber stuðningsmaður herforingjastjórnarinnar. Öfugt við skýringar flestra sagnfræðinga á aðdraganda herforingjastjórnarinnar, segir Bolsonaro að herinn hafi ekki framið valdarán.

Samkvæmt sannleiksskýrslu sem gefin var út árið 2014, í forsetatíð Dilmu Rousseff, tók herinn 434 af lífi í valdatíð sinni. Auk þess var fjöldi fólks hnepptur í varðhald án dóms og laga og pólitískir andstæðingar voru pyntaðir. Rousseff var sjálf handsömuð af yfirvöldum herforingjastjórnarinnar og pyntuð.

Fjöldi fólks ætlar að koma saman víða í Brasilíu til þess að andmæla herforingjastjórninni. Mótmælin fara fram undir yfirskriftinni: Einræði - Aldrei aftur.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi