Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Áfrýja til Hæstaréttar vegna Landsréttar

16.09.2017 - 12:38
Frá vinstri: Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, Ingveldur Einarsdóttir, Kristbjörg Stephensen, Ragnheiður Bragadóttir, Ragnheiður Harðardóttir, Arnfríður Einarsdóttir, Jóhannes Sigurðsson, Oddný Mjöll Arnardóttir, Jón Finnbjörnsson, Aðalsteinn E. Jónasson, Davíð
Dómarar við Landsrétt. Mynd: Dómsmálaráðuneytið
Jóhannes Karl Sveinsson, lögmaður Ástráðs Haraldssonar  og Jóhannesar Rúnars Jóhannssonar segir það áhyggjuefni ef þeir sem skipaðir hafa verið í Landsrétt séu ekki hæfustu umsækjendurnir. Ástráður og Jóhannes Rúnar hafa báðir áfrýjað til Hæstaréttar niðurstöðu héraðsdóms þar sem ríkið er sýknað af kröfum þeirra. 

Ástráður Haraldsson og Jóhannes Rúnar Jóhannsson stefndu ríkinu vegna skipunar ráðherra í Landsrétt þar sem ekki var farið eftir tillögum hæfisnefndar um skipun dómara. Héraðsdómur birti dóminn í gær og var ríkið sýknað af kröfum lögmannanna en í dómnum kemur fram að dómsmálaráðherra hafi brotið lög við skipunina. Þar segir að stjórnsýslumeðferð ráðherra hafi ekki verið í samræmi við lög nr. 50/2016. Einnig segir að mat dómnefndarinnar hafi verið háð efnislegum annmörkum.

Jóhannes Karl segir að lögmennirnir ætli báðir að áfrýja til Hæstaréttar. „Eins og kannski leit alltaf út fyrir að þetta mál myndi koma til kasta Hæstaréttar þá bara hafa þeir ákveðið að skjóta því þangað.“ 

Jóhannes Karl segir að tvö til þrjú atriði í dóminum séu ekki rétt að þeirra mati. „Það er m.a. það hvaða afleiðingar það hefur að ráðherra hafi brotið gegn dómstólalögum og stjórnsýslulögum, að sú niðurstaða geti ekki leitt til þess að þeir sem brotið er á, þeir sem brotið beinist að, geti þá ekki átt einhver úrræði í formi bóta eða annarra úrræða.“ 

Einnig gera þeir athugasemdir við skýringar dómara um það að þegar ákveðið er að ganga framhjá áliti dómnefndar, þurfi ekki endilega að fara eftir því.  
Jóhannes Karl segir að samkvæmt héraðsdómnum hafi dómsmálaráðherra skipað nýjan Landsrétt án þess að fara í gegnum nokkur af þeim atriðum sem átti að gera eins og að bera saman umsækjendur, rannsaka málið o.s.frv.

„Þannig liggur málið bara fyrir og það er bara gríðarlegt áhyggjuefni að Landsréttur sé skipaður með þeim hætti að það liggi ekki einu sinni fyrir að þessir 15 einstaklingar séu þeir hæfustu af umsækjendum.“ 

Dómsmálaráðherra sagði í kvöldfréttum í gær að dómur héraðsdóms væri áfellisdómur yfir störfum hæfisnefndar og hún væri hugsi yfir því.  Jóhannes Karl segir orð ráðherra ekki við hæfi. „Mér finnst nú kannski ekki alveg við hæfi að dómsmálaráðherra sem búinn er að fá þessa yfirhalningu í héraðsdómi sé að hrósa sigri yfir því að aðrir hafi ekki farið eins vel að, þar sem gagnrýnin á hæfisnefndina snýr að þeim mælikvörðum sem nefndin notaði og ákveðinni uppstillingu á því. Gagnrýnin á ráðherrann með dóminum snýst um að það hafi ekkert verið gert sem venjulega er gert þegar störf eru veitt, eins og umsækjendur bornir saman eða einhvern veginn hægt að raða þeim upp með einhverjum gagnsæjum hætti, þannig að mér finnst hún ætti að vera hugsi yfir einhverju öðru.