Afríkusambandið vill afsökunarbeiðni frá Trump

13.01.2018 - 05:37
epa06429924 US President Donald J. Trump makes remarks prior to signing the bipartisan Interdict Act, a bill to stop the flow of opioids into the United States in the Oval Office of the White House in Washington, DC, USA, on 10 January 2018.  EPA-EFE/Ron
Donald Trump kannast ekki við að hafa kallað Haítí, El Salvador og ótilgreind Afríkuríki „skítalönd“. Afríkusambandið krefst afsökunarbeiðni engu að síður. Mynd: EPA-EFE - Consolidated News Photos POOL
Sendiherrar ríkja Afríkusambandsins hjá Sameinuðu þjóðunum krefjast þess að Donald Trump Bandaríkjaforseti bæðist afsökunar á að hafa kallað Afríkuríki „skítalönd" á fundi um innflytjendamál í Hvíta húsinu í vikunni. Sögðu þeir að þeim væri „gríðarlega misboðið" vegna þessara niðrandi ummæla forsetans og fóru fram á að hann drægi þau til baka. Þetta kemur fram í ályktun sem sendiherrarnir, sem koma frá 55 Afríkulöndum, samþykktu á fundi sem blásið var til í tilefni frétta af ummælum Trumps.

Á fundinum í Hvíta húsinu, þar sem þingmenn Repúblikana og Demókrata kynntu sameiginleg drög að nýrri innflytjendalöggjöf, er Trump sagður hafa spurt hvers vegna Bandaríkin væru að taka á móti svo mörgum innflytjendum frá „skítalöndum" (e: shithole countries) á borð við Haítí, El Salvador og Afríkulöndum.

Í ályktun afrísku sendiherranna segir að þeir hafi áhyggjur af „viðvarandi og vaxandi tilhneigingu bandarískra stjórnvalda til að svívirða Afríku, Afríkubúa og litað fólk." Sendinefndinni er „gríðarlega misboðið og fordæmir harðlega forkastanleg ummæli Bandaríkjaforseta, sem greint hefur verið frá í fjölmörgum fjölmiðlum og bera vitni um kynþáttafordóma og útlendingaandúð." Jafnframt þakka sendiherrarnir þeim fjölmörgu Bandaríkjamönnum af öllum þjóðfélagsstéttum sem hafa fordæmt ummæli forsetans.

Ályktunin var samþykkt einróma eftir fjögurra klukkustunda umræður. „Aldrei þessu vant, þá vorum við öll á sama máli núna," sagði einn sendiherranna í samtali við tíðindamann AFP-fréttastofunnar eftir fundinn. 

Þrætir fyrir að hafa notað þessi orð

Trump neitaði því á föstudag að hafa notað akkúrat þetta orðalag. Hann sendi frá sér runu af tístum á Twitter, þar sem segist vissulega hafa tekið hraustlega til orða og ekki alltaf fallega, en hann hefði ekki kallað umrædd ríki „skítalönd." Tveir fulltrúadeildarþingmenn repúblikana, sem staddir voru á fundinum, styðja þessa fullyrðingu forsetans.

Öldungadeildarþingmaðurinn Dick Durbin, sem er Demókrati, fullyrðir aftur á móti að Trump hafi kallað Afríkulönd „skítalönd“ oftar en einu sinni á fundinum og talsmáti hans hafi ítrekað einkennst af orðalagi sem rasistum er tamt á tungu.

Repúblikaninn og öldungadeildarþingmaðurinn Lindsey Graham, sem var að kynna frumvarpsdrögin fyrir forsetanum ásamt Durbin, neitar því ekki að forsetinn hafi notað téð orðbragð. Hann segist hafa sagt Trump sitt álit á ummælunum augliti til auglits eftir fundinn. Forsetinn og aðrir fundargestir viti alveg hvað honum fyndist um þetta mál.

Washington Post og New York Times birtu ummælin um innflytjendur frá „skítalöndum“ á fimmtudag og höfðu eftir fleiri en einum ónafngreindum aðilum, sem ýmist voru á fundinum eða ræddu við fundargesti skömmu eftir að fundi lauk. Skrifstofa Hvíta hússins bar ekki brigður á þessar frásagnir og það var fyrst daginn eftir, eftir mikil og hörð viðbrögð alstaðar að úr heiminum, að Trump sjálfur greip símann og tók að bera af sér sakir á Twitter.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi