Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Áfram unnið að viðgerðum

17.12.2019 - 12:42
Mynd með færslu
 Mynd: Ágúst Ólafsson - RÚV
Enn er mikið af bilunum í dreifikerfi RARIK sem taka mun nokkra daga að lagfæra og búast má við truflunum á afhendingu rafmagns á meðan. Rafmagnslaust er í Vestur-Húnavatnssýslu, leitað er að bilunum.

Lagfæringar á Dalvíkurlínu ganga vel samkvæmt upplýsingum frá Landsneti, allar stæður eru komnar upp og þegar byrjað að hengja upp leiðara. Gangi áætlun eftir á línan að komast aftur í rekstur á morgun. Viðgerð við Kópaskerslínu er líka í fullum gangi. Línan er í rekstri frá Laxá og Þeistareykjum að Lindarbrekku og tengipunkti við fiskeldisstöð í Öxarfirði, sem er um 15 km suður af Kópaskeri. Viðgerð á línuhluta næst Kópaskeri hófst í dag og standa vonir til að hún komist í gagnið um helgina. Þá er stefnt að því að klára viðgerðir á Húsavíkurlínu í dag.

Aftur rafmagnslaust

Rafmagnslaust var nú fyrir hádegi frá Hvammstanga að Vigdísarstöðum og frá Reykjaskóla að Laugabakka í Vestur-Húnavatnssyslu, segir á heimasíðu RARIKs. Verið er að leita að bilunum í Vestur Húnavatnssýslu og búið er að koma rafmagni á Miðfjörð og Hrútafjörð frá Hrútatungu að Reykjaskóla og á Heggstaðarnes. Enn er verið að leita að bilunum á Hrútafjarðarhálsi og í spennistöðvum við Hvammstangaveg. Þeir notendur sem eru komnir með rafmagn kunna að verða fyrir truflunum á meðan á leit og viðgerð stendur.

FM-sendar eru háðir rafmagni

FM-útvarpssendingar duttu víða út í óveðrinu. Gísli Arnar Gunnarsson hjá dreifikerfi RÚV segir FM-senda háða rafmagni. Sex stórir sendar séu með dísil-varaafli en minni sendar án varaafls detti út í rafmagnsleysi. Hann segir að einn sendir sé óvirkur sem stendur, vegna ísingar. Hann er á í Grenjadalsfelli í Víðidal. Þar um slóðir nær fólk ekki FM-sendingum útvarps og unnið er að viðgerð. Samvkæmt upplýsingum frá Vodafone er farsímasendir á Melstað í Miðfirði rafmagnslaus svo búast má við truflunum.

Gísli Arnar segir langbylgjuna ná til landsins alls, en sendarnir eru á Gufuskálum og á Eiðum. Báðir sendar séu búnir varaafli svo rafmagnsleysi geti ekki haft áhrif. Vandinn við langbylgjuna sé hins vegar sá að nýleg útvörp taki ekki alltaf á móti tíðni hennar. 

Íbúar beðnir að takmarka rafmagnsnotkun

Víða er keyrt á varafli á Norðulandi og Norðausturlandi, eins og á Raufarhöfn, Þórshöfn, Bakkafirði, Hrísey og  Dalvík  og biður Rarik alla sem eru tengdir varaafli að spara rafmagn eins og kostur er. Siglufjörður og Ólafsfjörður fá rafmagn frá Skeiðsfossirkjun. Nú er atvinnulífið á Dalvík að fara í fullan gang og óskað er eftir að fólk fari sparlega með rafmagn til klukkan 18 til að draga úr líkum á óæskilegum truflunum. Í því skyni er rétt að nota t.d. ekki þvottavélar, þurrkara, eldavélar, bakaraofna og önnur tæki sem nota mikið rafmagn.

Enn langt í land

Bilanir eru í Reykjadal og í Fnjóskadal, þar er varaafl og allir með rafmagn. Í Grýtubakkahreppi liggur línan niðri frá Nolli að Sveinbjarnargerði, þar er notast við varaafl. Vegna bilunar á Dalvíkurlínu er rafmagn fyrir Árskóssand tekið frá Rangárvöllum sem veldur lélegum spennugæðum. Viðgerð á línunni frá Dalvík að Árskógsandi er hafin en hún er slitin og mikill halli á staurum. Allir með fasta búsetu í Svarfaðardal eru komnir með rafmagn frá varaafli á Dalvík.