Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Áfram lögð áhersla á Norðurlandasamstarf

13.04.2018 - 14:46
Guðlaugur Þór Þórðarson
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra flutti Alþingi nú rétt eftir hádegi skýrslu sína um utanríkis- og alþjóðamál. Guðlaugur Þór fór hratt yfir sögu og benti á að búið væri að efla stöður heimasendiherra þar sem reyndir sendiherrar sinni verkefnum í ráðuneytinu og búið sé að endurvekja varnarmálaskrifstofu ráðuneytisins.

Utanríkisráðherra lagði mikla áherslu á að Norðurlandasamstarf verði áfram einn af hornsteinum utanríkisstefnu Íslands en stærsta verkefnið fram undan sé formennska Íslands í norrænu ráðherranefndinni sem hefjist um næstu áramót.  

Á formennskuári munu ráðherrar og aðrir fulltrúar Íslands stýra fundum á ólíkum stigum norræns samstarfs. Þá fór utanríkisráðherra yfir það að ríkisstjórnin hafi ákveðið í samráði við utanríkismálanefnd að taka þátt í samstilltum aðgerðum Vesturlanda gagnvart rússneskum stjórnvöldum í kjölfar efnavopnaárásarinnar í enska bænum Salisbury og öllum tvíhliða fundum með rússneskum ráðamönnum og háttsettum embættismönnum hafi verið frestað um óákveðinn tíma. 

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV