Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Áfram fylgst með Múlakvísl

16.01.2019 - 16:12
Mynd með færslu
 Mynd:
Múlakvísl á Mýrdalssandi er óvenju mikil um sig og meiri en venjulega á þessum árstíma, segir Einar Hjörleifsson náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands. Greint var frá því í fréttum í gær að lítið hlaup væri í Múlakvísl.

Einar segir að áfram mælist óvenju mikil rafleiðni en dregið hafi úr vatnshæð og rennsli.

Fram kom í fréttum í gær að Veðurstofan teldi enga sérstaka ástæðu til að grípa til aðgerða að svo komnu máli. Einar segir það óbreytt. „Við vöktum hana áfram og ef við teljum að það sé von á stærra hlaupi en komið er þá munum við reyna að gefa út tilkynningu þess efnis.“

Hlaupið stafi líklega af uppsöfnuðu bræðsluvatni sem sé að hlaupa fram undan jöklinum. „Við náum ekki að sjá það nema flogið sé yfir og katlarnir skoðaðir.“ Það standi ekki til á vegum Veðurstofunnar eins og er. 

asrunbi's picture
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV