Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Áföll hafa áhrif á börn í móðurkviði

Mynd: Gunnar Hansson / Gunnar Hansson
Gunnlaug Thorlacius, félagsráðgjafi og formaður Geðverndarfélags Íslands og Anna María Jónsdóttir, geðlæknir og varaformaður félagsins komu í Mannlega þáttinn í dag og töluðu um geðheilbrigði ungra barna á Íslandi.

Fyrstu þúsund dagarnir

Samkvæmt þeim Önnu og Gunnlaugu hafa gagnreyndar rannsóknir sýnt að tíminn frá getnaði til tveggja ára aldurs er afgerandi fyrir þroska og velferð barna. Geðverndarfélag Íslands hefur samþykkt nýja stefnu um geðheilbrigði ungra barna og þar kemur meðal annars fram að umhverfi og áföll hafa mikil áhrif á heilaþroska barns í móðurkviði og fyrstu tvö ár eftir fæðingu, mun meiri áhrif en áður var vitað. Áföllin geta haft áhrif á samband barns og foreldra. Bein tengsl eru milli ófullnægjandi tengslamyndunar og erfiðleika barns síðar á lífsleiðinni.

Fyrir hverja krónu er hægt að spara 30 krónur

Anna vitnaði í skýrslu London School of Economics um að rannsóknir sýndu að snemmtækum stuðningur og sálfélagsleg inngrip fyrir fjölskyldur ungbarna kosti lítið, miðað við samfélagslegan kostnað ef ekkert sé að gert. „Fyrir hverja krónu sem er eytt í þennan málaflokk sé hægt að spara 30 krónur miðað við ef ekkert er gert.“

Viðtalið við þær Önnu Maríu og Gunnlaugu, sem var í Mannlega þættinum fimmtudaginn 31. maí, má hlusta á í heild í spilaranum hér fyrir ofan.