Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Afnema gjaldeyrishöft á einu ári

15.12.2011 - 13:15
Mynd með færslu
 Mynd:
Hægt væri að afnema gjaldeyrishöftin á mun skemmri tíma en stjórnvöld ráðgera, með því að gefa út ríkisskuldabréf í erlendri mynt fyrir þá sem eiga aflandskrónur. Þetta segir hópur sérfræðinga sem kynnti tillögur sínar í morgun.

Viðskiptaráð Íslands fékk hóp hagfræðinga - þar á meðal Gylfa Magnússon, fyrrum efnahags og viðskiptaráðherra - til að leggja mat á áhrif gjaldeyrishaftanna og hvernig hægt væri að losa um þau á skemmri tíma en stjórnvöld og Seðlabanki Íslands hafa ráðgert.

Það sem stendur í vegi er í rauninni það sem kallað hefur verið snjóhengja aflandskróna - innistæður erlendra aðila hér á landi í íslenskum krónum - sem gætu runnið út á skömmum tíma, yrði höftum aflétt, og haft mjög neikvæð áhrif, til dæmis á gengi krónunnar.

Hugmynd sérfræðingahópsins er að bjóða eigendum þessara fjármuna upp á að kaupa ríkisskuldabréf  til langs tíma, í erlendri mynt.

Ingvi Örn Kristinson hagfræðingur er í þessum hópi.

„Það er hugmyndin, að setja snjóhengjuna í langt endurgreiðsluferli - taka hana út fyrir sviga og skapa þannig skilyrði til að afnema höftin fyrir fyrirtæki, einstaklinga og lífeyrissjóði.“

Bréfin gætu í framhaldinu gengið kaupum og sölum, en þetta hefði hins vegar engin áhrif á gjaldeyrisforða ríkissjóðs - eða á gengi íslensku krónunnar - því þau yrðu greidd upp á það löngum tíma.

Gylfi Magnússon, dósent í hagfræði, segist þess fullviss að markaður sé fyrir bréf af þessu tagi.

„Það er markaður fyrir ríkisskuldabréf í erlendri mynd, bréf sem ríkissjóður gaf út í vor. Þannig að það er ekki óraunhæft að hleypa fjárfestum úr landi í gegnum þessa leið.“