Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Afneitararnir skilja umfang vandans

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV ohf.

Afneitararnir skilja umfang vandans

20.10.2019 - 16:09

Höfundar

„Ef það er eitthvað sem þessi hópur skilur þá er það umfang vandans, ef þú skoðar til dæmis þær lausnir sem margir frjálslyndir vinstrisinnaðir einstaklingar leggja fram þá hrökkva þær afskaplega skammt. Umfangið er miklu stærra. Aðgerðirnar sem við þurfum að fara í eru miklu dýpri og ef við förum í þær aðgerðir sem eru nauðsynlegar þá munu þær leiða til efnahagskreppu,“ þetta segir Guðni Elísson, bókmenntafræðiprófessor.

Parísarsamkomulagið byggi á bjartsýni og von

Guðni hefur í tuttugu ár greint loftslagsumræðuna og málflutning þeirra sem afneita því að hlýnun jarðar sé af mannavöldum. Hann segir afneitun margra tengjast hugmyndafræði þeirra, oft séu þetta róttækir nýfrjálshyggjumenn.

Guðni telur Parísarsamkomulagið og markmið þess um að halda hlýnun jarðar innan tveggja gráðu marksins byggja á bjartsýni og von. Það sé lítið borð fyrir báru. „Ég held að almenningur átti sig ekki almennilega á því hversu erfitt það verður fyrir alþjóðasamfélagið að halda sig innan þeirra marka, það er nánast útilokað. Vandinn er þessi, ef við gerum ekkert þá leiðir það til miklu, miklu meiri hörmunga heldur en djúpar og miklar aðgerðir, lýðræðið verður það fyrsta sem fer þegar fólk fer að berjast um vatn og nauðþurftir. Við eigum ekkert að fara á þann stað þannig að ég skil ekki hvers vegna þessir einstaklingar, sem nota draslheimildir, sem kunna ekki einu sinni að vinna með heimildir eru að fullyrða svona lagað.“

Í þriðja þætti Loftslagsþerapíunnar er fjallað um afneitunina sem er lúmsk og marglaga eins og laukur og hvers vegna við erum flest meistarar í henni. Þátturinn er aðgengilegur í spilara Rásar 1.  

Tengdar fréttir

Menningarefni

Vill ekki láta kalla sig afneitunarsinna

Menningarefni

Hrun siðmenningar ekki óumflýjanlegt