Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Aflandsvæðing og helsjúkt samfélag

28.04.2016 - 08:50
Mynd: Óðinn Jónsson / Morgunvaktin
Gylfi Magnússon hagfræðingur og fyrrverandi viðskiptaráðherra segir að aflandsvæðingin hafi skapað helsjúkt samfélag og haft gríðarlega vond áhrif á íslenskt efnahags- og viðskiptalíf.

„Aflandsvæðingin hefur tvímælalaust haft mjög slæm áhrif. Það en nánast sama hvar drepið er niður fæti þá koma í ljós slæm áhrif. Auðvitað hafa menn fyrst og fremst horft á skattahliðina og þá staðreynd að svona félög eru í mjög mörgum tilfellum notuð til að komast hjá skattgreiðslum. Stundum beinlínis ólöglega en stundum með einhverjum flækjum sem standast nú ítrustu próf lögfræðinnar þótt þau séu ekki siðleg. Það þýðir þá auðvitað bara að þeir sem eru með breiðustu bökin þeir eru þá ekki að borga sinn skerf við að halda samfélaginu uppi. Það er auðvitað afleitt. Þeir sem lenda í því að þurfa að borga, venjulegt launafólk sem getur ekki komið sínum tekjum undan skatti með svona trikkum, finna auðvitað fyrir því.“

Þetta kom fram í viðtali við Gylfa Magnússon á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. Gylfi segir að ruðningsáhrif þessa séu mikil. „Þeir sem notfæra sér svona brögð geta haft forskot á aðra og þar með heltast hinir úr lestinni í samkeppninni. Þannig að við getum endað með helsjúkt samfélag sem ég held því miður að sé ekkert fjarri lagi sem lýsing á efnahagslífinu.“

palmij's picture
Pálmi Jónasson
Fréttastofa RÚV