Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Afkoma VÍS verri en vænst var

02.10.2019 - 07:33
Mynd með færslu
 Mynd: VÍS
Afkoma tryggingafélagsins VÍS á þriðja ársfjórðungi verður lakari en áður var gert ráð fyrir. Því er spáð að tap félagsins geti orðið allt að 420 milljónum króna fyrir skatta, en áður var gert ráð fyrir næstum 140 milljóna króna hagnaði. Þar með hafa öll þrjú tryggingafélögin sem skráð eru á markað tilkynnt um verri afkomu en vænst var. Ástæðan er verri afkoma af hlutabréfum í eigu tryggingafélaganna. Þá afskrifar VÍS 155 milljónir króna vegna lækkunar á virði fasteignasjóðs á vegum Gamma. 

Í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins, er greint frá því að nýir stjórnendur GAMMA, dótturfélags Kviku, kanni nú greiðslur sem runnu frá Upphafi fasteignafélagi, sem er í eigu fagfjárfestasjóðsins GAMMA:NOVUS, til félaga sem komu að framkvæmdaverkefnum sem fasteignafélagið Upphaf, sem var í eigu sjóðsins, hefur unnið að. Grunur leiki á að ekki hafi verið eðlilega að greiðslunum staðið.

Þar er meðal annars um að ræða greiðslur, samkvæmt heimildum Markaðarins, til félaga sem tengjast Pétri Hannessyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra Upphafs, starfsmannaleigunnar Elju, sem er stýrt og að hluta í eigu Arnars Haukssonar, bróðurs Gísla Haukssonar, eins af stofnendum GAMMA, og til verkfræðistofunnar Erils sem var eftirlitsaðili með fasteignaverkefnum Upphafs.
 

 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV