Afganir samþykkja að sleppa föngum

11.03.2020 - 05:14
epa08275979 A car past a building where gunmen were hiding during an attack the day before, Kabul, Afghanistan, 07 March 2020. In total, 27 people were killed and dozens more were wounded on 06 March in an attack during a political gathering in the Afghan capital.  EPA-EFE/JAWAD JALALI
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Stjórnvöld í Afganistan kveðast tilbúin að leysa fimm þúsund Talibana úr haldi ef þeir samþykkja að draga verulega úr átökum. Talsmaður Ashrafs Ghani, forseta Afganistans, greindi frá þessu í gærkvöld. Stjórnvöld vonast til þess að boðið leiði til sátta. 

Bandaríkjastjórn greindi frá því fyrr í gærkvöld að hún væri byrjuð að draga herlið sitt til baka úr landinu. Það er gert samkvæmt samkomulagi við Talibana sem Bandaríkin undirrituðu í síðustu viku. 

Afgönsk stjórnvöld sögðu í gærkvöld að fangarnir verði leystir úr haldi í tvennu lagi. 1.500 fái að fara frá og með laugardeginum í virðingarskyni við Talibana, og 3.500 til viðbótar þegar friðarviðræður hefjast, hefur AFP fréttastofan eftir Sediq Sediqqi, talsmanni forsetans. Ef Talibanar draga verulega úr hernaðaraðgerðum verður 100 föngum sleppt á hverjum degi, segir Sediqqi. 

Zalmay Khalilzad, samningamaður Bandaríkjanna í Afganistan, fagnaði málamiðlun stjórnvalda. Hann hvatti Talibana og Afgani til þess að hefja viðræður hið fyrsta í Katar. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna lýsti í gær yfir stuðningi við samning Bandaríkjanna og Talibana. Ráðið hvatti stjórnvöld í Afganistan til þess að hefja friðarferli, til að mynda með viðræðum við Talibana. 

Samkvæmt samningi Bandaríkjanna og Talibana eiga erlendar hersveitir að vera farnar úr Afganistan innan 14 mánaða. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi