Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Áfengi, tóbak og eldsneyti hækka um áramót

06.09.2019 - 13:57
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Nokkrar breytingar verða á skattkerfinu um áramót. Eldsneyti, áfengi og tóbak hækkar í verði og nýir umhverfisskattar taka gildi.

Umfangsmestu breytingarnar snúa að tekjuskatti en þrepin verða nú þrjú í stað tveggja áður. Verður lægsta skattþrep 31,44 prósent og er sérstaklega ætlað til að bæta kjör tekjulægstu hópa.

Tryggingagjald, sérstakt gjald sem launagreiðendum ber að greiða af heildarlaunum launþega, lækkar um 0,25 prósentustig og verður frá og með áramótum 6,35 prósent. Á móti kemur að persónuafsláttur mun lækka sem nemur 5 þúsund krónum.

Kolefnisgjald hækkar um 10 prósent, en það er lagt á innflutning á gas, díselolíu, bensín og flugvélaeldsneyti svo dæmi sé tekið.

Nýir grænir skattar verða teknir upp, í skrefum næstu tvö árin. Annars vegar skattlagning á urðun úrgangs sem á að hvetja til endurvinnslu. Er gert ráð fyrir að skatturinn nemi að meðaltali 6 þúsund krónum á fjögurra manna heimili á næsta ári. Hins vegar er það skattur á svokölluð F-gös sem notuð eru í kælikerfum á iðnaði.

Loks er gert ráð fyrir að krónutölugjöld hækki um 2,5 prósent. Nær sú hækkun til vörugjalda á áfengi, tóbak, eldsneyti og bifreiða- og kílómetragjalds. Jafnframt hækkar gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra og útvarpsgjald um 2,5 prósent.

 

Magnús Geir Eyjólfsson