Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Afbrotum fækkar eftir því sem innflytjendum fjölgar“

Mynd: Anton Brink / Rúv
Embætti ríkislögreglustjóra telur hátt hlutfall innflytjenda í ákveðnum hverfum auka hættuna á því að hér verði til viðkvæm svæði eða gettó þar sem glæpagengi vaða uppi. Þetta má ráða af nýrri skýrslu um hugsanlegar áskoranir sem lögregla gæti staðið frammi fyrir í náinni framtíð. Það er vísað í ákveðin hverfi í Svíþjóð og Danmörku og staðan í þeim á ekki við þann veruleika sem við erum með í dag,“ segir Óskar Dýrmundur Ólafsson. Hverfisstjóri í Breiðholti.

„Skýrslunni er eingöngu ætlað að gefa vísbendingar um mögulega þróun og það þarf að taka henni með þeim gleraugum,“ segir Tatiana Latinovic, formaður innflytjendaráðs stjórnvalda. 

Mynd með færslu
 Mynd: Tatjana Latinovic
Tatiana Latinovic.

Hlusta má á viðtal við Tatiönu og Óskar Dýrmund í spilaranum.

Stækkandi þjóðfélagshópur

Það hefur fjölgað hratt í hópi innflytjenda undanfarin ár. Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands tilheyra 16% íbúa landsins fyrstu eða annarri kynslóð innflytjenda. Hlutfall innflytjenda er hæst á Suðurnesjum, tæp 27% og næsthæst á Vestfjörðum þar sem það er 19%. Það er mikill munur milli einstakra hverfa í Reykjavík. Í Fossvogi teljast sjö af hverjum hundrað íbúum fyrstu eða annarri kynslóð innflytjenda. Á Kjalarnesi eru innflytjendur í miklum meirihluta, þrír af hverjum fjórum íbúum. Í Efra-Breiðholti er hlutfallið 34% og af þeim sem eru óstaðsettir í hús í Reykjavíkurborg eru innflytjendur 52%.

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Hlutfall innflytjenda er mishátt eftir hverfum borgarinnar. Frá 4% upp í 75%.

Gögn sýni tengsl milli öryggis og aukins fjölda innflytjenda

Í skýrslunni kemur fram að í sumum hverfum í Reykjavík sé hlutfall innflytjenda nú 20 - 34% og fari líklega hækkandi. Í ljósi þessa telur embættið að á næstu fimm árum eigi eftir að reyna sem aldrei fyrr á stefnu stjórnvalda um félagslega blöndun. Tatiana segir að þetta ætti ekki að koma neinum á óvart, „en það er kannski áhyggjuefni að talan sé ekki jafnhá alls staðar“. Óskar Dýrmundur telur hátt hlutfall innflytjenda í vissum hverfum ekki vandamál. „Það er engan veginn áhyggjuefni að hlutfallið sé hátt í ákveðnum hverfum. Víða um landið er hátt hlutfall fólks af erlendum uppruna, til dæmis á Vestfjörðum og á Suðurnesjum og það er bara til bóta. Þetta eru auðvitað varnaðarorð fram í tímann sem er að finna í þessari skýrslu. Það er vísað í ákveðin hverfi í Svíþjóð og Danmörku og staðan í þeim á ekki við þann veruleika sem við erum með í dag. Ég get nefnt sem dæmi að með tilkomu innflytjenda, sem hefur fjölgað nokkuð mikið, þá hefur öryggi aukist í viðkomandi hverfi. Brotatölur hafa lækkað samkvæmt tölum Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Hverfið hefur einmitt orðið öruggara og reynsla okkar því allt önnur en nágrannaþjóða okkar. Ég held þetta sé til komið vegna þess að við vinnum markvisst að samþættingu og erum með ákveðna stefnu sem er fallin til þess að tengja fólk betur saman og skapa samfélag úr ólíkum hópum.“

Dökk mynd dregin upp í flestum sviðsmyndum

Skýrslan sjálf tekur aðallega til næstu fimm ára en aftast er að finna fjórar sviðsmyndir af því hvernig samfélagið kann að þróast næstu fimmtán árin. Í þremur af fjórum sviðsmyndum er lýst neikvæðri þróun á svæðum þar sem innflytjendur eru í meirihluta. Svona hljóma lýsingarnar:

Samfélagið verður sífellt lagskiptara. Í sumum hverfum eru innflytjendur í miklum meirihluta. Margir þeirra eru í viðkvæmri stöðu, atvinnulausir, einangraðir og hljóta ekki framgang innan samfélagsins. Með brostnar væntingar í farteskinu leiðast sumir inn á braut afbrota og gengjastarfsemi. Það gætir aukinnar spennu í samfélaginu, þjóðernissinnar beina spjótum sínum gegn innflytjendum í auknum mæli og hatursorðræða grasserar á samfélagsmiðlum. Lögreglan er fjársvelt og á erfitt með að halda uppi löggæslu í þessum hverfum. Samskipti hennar við íbúa þeirra eru erfið vegna tungumálaörðugleika, skorts á menningarlæsi og gagnkvæmrar tortryggni.

í einni af þessum fjórum sviðsmyndum er dregin upp annars konar mynd: Lögreglan hefur verið virk í aðgerðum stjórnvalda til að auðvelda innflytjendum að taka þátt í samfélaginu. Hlutfall innflytjenda er í mörgum hverfum yfir 25% og sums staðar yfir 55%. Árið 2024 ákváðu stjórnvöld að endurskipuleggja lögreglunámið með aukinni áherslu á samfélag innflytjenda. Lögreglan endurspeglar samfélagið betur og það eru starfandi hundrað lögreglumenn með erlendan bakgrunn, flestir af pólskum ættum. Þeir starfa einkum í hverfum þar sem innflytjendur eru fjölmennir í þeim tilgangi að efla traust og bæta þjónustu.

Mikilvægt að auka fjölbreytileika innan lögreglunnar

Tatiana segir mikilvægt að auka fjölbreytileika innan lögreglunnar. „Eins og kemur fram í skýrslunni þá hefur lögreglan ekki greiðan aðgang að samfélögum innflytjenda, það þarf að bæta ef svo er. Mannaflatölur lögreglunnar eru ekki greindar eftir kyni og uppruna og þetta er verkefni fyrir lögreglu og dómsmálayfirvöld, að auka fjölbreytnina til að ná til hópa innflytjenda, sumir hópar hér eru nógu stórir til að geta fúnkerað út af fyrir sig en við viljum það auðvitað ekki.“ 

Í skýrslunni er lögð áhersla á að sviðsmyndir feli ekki í sér spádóm. Gæði þeirra felist ekki í því hvort þær rætist heldur hvort þær séu til þess fallnar að hvetja stjórnvöld og forráðamenn lögreglu til stefnumótuanr og ákvarðanatöku. Það er því ekki hægt að segja að ríkislögreglustjóri spái því að allt verði hér vaðandi í gengjaátökum eftir fimmtán ár, en það er augljóslega eitthvað sem starfsmenn embættisins vilja reyna að koma í veg fyrir.