Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Afar skiptar skoðanir um framboð Ólafs

28.04.2016 - 19:47
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Afar skiptar skoðanir eru um þá ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar að gefa áfram kost á sér sem forseti. Fjörutíu og fjögur prósent eru ánægð með ákvörðun hans, fjörutíu og þrjú prósent óánægð. Þetta leiðir ný skoðanakönnun Gallups í ljós.

Tíu dagar eru síðan Ólafur Ragnar Grímsson tilkynnti að hann hefði ákveðið að bjóða sig aftur fram í forsetakosningunum í júní. Dagana 20. til 27. apríl spurði Gallup hvernig fólki litist á þetta. 

  • Tuttugu og tvö prósent sögðust alfarið ánægð með ákvörðun Ólafs
  • þrettán prósent voru mjög ánægð
  • tíu prósent frekar ánægð
  • þrettán prósent sögðust hvorki vera ánægð né óánægð
  • ellefu prósent voru frekar óánægð
  • níu prósent voru mjög óánægð
  • tuttugu og þrjú prósent voru alfarið óánægð með ákvörðun Ólafs Ragnars. 

Alls eru fjörutíu og fjögur prósent ánægð og fjörutíu og þrjú óánægð. 

Fleiri höfuðborgarbúar voru óánægðir með framboðstilkynninguna en ánægðir en þegar litið er til íbúa annarra sveitarfélaga snýst dæmið við. 

Þeir sem þéna innan við tvö hundruð og fimmtíu þúsund á mánuði eru flestir ánægðir með ákvörðun Ólafs en það breytist eftir því sem tekjur fólks aukast. Þannig er meira en helmingur þeirra sem hefur milljón til tólfhundruð og fimmtíu þúsund í mánaðartekjur óánægður með framboðstilkynninguna. Myndin breytist hins hjá þeim sem hafa hærri tekjur því helmingur þeirra er ánægður með að Ólafur gefi kost á sér.