Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Af mataruppeldi bókaháka

Mynd: Hodder & Stoughton / Hodder & Stoughton

Af mataruppeldi bókaháka

14.02.2020 - 10:35

Höfundar

„Að lesa er að borða er að hungra,“ segir Sunna Dís Másdóttir í pistli um mat í barnabókum. „Það má leiða að því líkur að hvað varðar mataruppeldi íslenskra barna hafi frú Blyton þar farið með mun veigameira hlutverk en margir heimilisfræðakennarar landsins.“

Sunna Dís Másdóttir skrifar:

„Þau eltu öll Stefán upp að íbúðarhúsinu. Hann svipti svo upp hurðinni og þá blasti heldur en ekki aðlaðandi sýn við börnunum.

Langt og sterklegt eldhúsborð var búið drifhvítum dúki og á því stóð sá dásamlegasti málsverður sem þau höfðu nokkru sinni augum litið.

Reykt svínslæri beið þess albúið að sneitt yrði af því. Við hlið þess var nautatunga, skreytt grænni steinselju. Feikna mikil grænmetisskál, sem harðsoðnum eggjum var stráð yfir, var á miðju borði. Tvær steiktar hænur, umkringdar brúnuðu fleski, voru einnig á borðinu.

Augun ætluðu út úr höfðinu á börnunum. En sú veisla! Og allt brauðið og kökurnar. Ávaxtamauk og hunang. Fullar könnur af blessaðri nýmjólk.

„Hérna – er – á að vera veisla?“ spurði Jonni furðu lostinn.

„Veisla. Nei, nei, svolítill matarbiti handa ykkur með teinu,“ ansaði Auður

(Ævintýrafjallið, Enid Blyton)

Þessi stutta sena úr Ævintýrafjallinu eftir Enid Blyton gæti svo sem komið úr nokkurn veginn hvaða bók þess afkastamikla höfundar sem er. Georg, Jonni eða Dóra – það skiptir ekki máli, öll settust þau reglulega að svignandi veisluborðum. Eða, það sem enn betra var, tóku með sér fagurlega innpakkað nesti í tágakörfu til þess að borða undir berum himni í ensku blíðviðri.

Að borða er að muna, eins og franski rithöfundurinn Marcel Proust vissi líklega manna best. Magðalenukökurnar hans, úr stórvirkinu Leitin að glötuðum tíma, eru kannski frægasti bókmenntabiti sögunnar – þar sem þær opna höfundinum gátt inn í minningarnar og orðin.

Að borða er að muna og kannski er að lesa líka að borða, eins og bandaríski hönnuðurinn Dinah Fried skrifar í inngangi að bók sinni sem hún nefnir – í minni þýðingu - Skáldaðar máltíðir – myndaalbúm af minnisstæðustu máltíðum bókmenntanna. Fried skrifar: „Að lesa og að borða helst í hendur, þessar athafnir eiga margt sameiginlegt. Að lesa er að neyta. Að borða er að neyta. Hvort tveggja er í senn hughreystandi, nærandi, styrkjandi, slakandi og að mestu leyti ánægjulegt.“

Það má leiða að því líkur að hvað varðar mataruppeldi íslenskra barna hafi frú Blyton þar farið með mun veigameira hlutverk en margir heimilisfræðakennarar landsins. Þær eru ófáar kynslóðirnar sem hafa legið yfir ævintýrabókum, fimmbókum og ráðgátubókum og svolgrað í sig lýsingar af veisluhöldum á borð við þau sem lýst var hér áðan. Eftir á að hyggja eru þetta líklega minnisstæðustu matarupplifanir mínar úr bernsku, þessi fyrstu kynni mín af gastrónómíu – þær sem ég átti í orði, ekki á borði (ég er enda af kynslóðinni sem rambaði á barmi nútímaeldamennsku, borðaði til skiptis soðna ýsu með feiti og nýstárlega pastarétti með óhóflegu magni af bræddum papríkuosti ).

Mynd með færslu
 Mynd: CC
Enid Blyton barnabókahöfundur.

Að lesa er að borða er að muna. Og hvað barnabækurnar varðar vinda þar minnið og maturinn sig saman í órofa og marglaga heild, einhvers konar millefoille minninganna.

Ég varð snemma læs, snemma bókaormur, eða bókahákur. Útlánstakmarkanir Borgarbókasafnsins á barnakortum komu sér sérlega illa fyrir mig, sem var iðulega búin með eina bók þegar strætóferðinni heim af safninu var lokið. Ég gleypti í mig bækur, af ákefð og áfergju, og ég man bragðið af þeim.

Sjálf hef ég komist að því að ég man betur eftir þeim sögum og bókum sem gerðust í fjarlægum löndum, í óræðum heimum eða á öðrum tímum en samtímasögum af Íslandi níunda áratugarins. Þar er líklega matarmenningunni sem birtist á síðum barnabókanna einna helst að þakka, hungur bókaháksins var óseðjandi en kræsingarnar sem á borð voru bornar í framandi umhverfi barnabókanna slógu á sárustu svengdina. Hrærða skyrið og ristaða brauðið sem voru góðkunningjar á mínu eigin matarborði, og öðrum íslenskum söguhetjum var gert að borða, greyptu sig ekki í minnið með sama hætti. Aftur á móti man ég vel ilminn sem systkinin í  Sitji Guðs englar-þríleik Guðrúnar Helgadóttur fundu af jólaeplunum – hann barst til mín í gegnum áratugina, kunnuglegur en samt framandi – því ætti einhver að finna svo sterka lykt af eplum, ég sem maulaði þau daglega?  

Ég man engiferölið og aldinmaukið sem söguhetjur Enidar Blyton gæddu sér á; ég man köldu kjötbollurnar sem Madditt miðaði í opið ginið á vini sínum; ég þráði árum saman að fá að bragða glóðað brauðið með þykkri sneið af volgum geitaosti sem Heiða ristar sjálf yfir arineldinum fyrsta kvöldið hjá afa sínum í fjöllunum. Ég man dýrðina alla sem nágrannar Péturs og Brands tíndu upp úr körfunum sínum þegar búrið þeirra félaga var tómt og jólin alveg að koma. Ég les: “Það er nóg hérna! Sjáðu! sagði Elsa. Og svo tók hún upp úr körfunni svínakjöt, sultu, rauðkál, kjötbollur, brauð, svínakjötssoð til að dýfa í brauðinu, jólaöl, piparkökur og kleinur.” Á mynd höfundarins, Svens Nordqvist, brosir búlduleit kona ofan í körfuna, hlaðna af góðgæti. Ímynd og holdgerving matmóðurinnar sem við þráum öll.

Þetta er frumhungur, hungur barnsins sem öskrar á mat og breytist seinna í aðra frumstæða þörf – hungrið eftir fleiri orðum, fleiri sögum, dýpri þekkingu og auknum tengslum við heiminn sem bíður þarna úti eða sem einu sinni var og kallar til okkar. Raunverulegir matreiðslumeistarar nútímans virðast einnig hafa áttað sig á þessum tengdu brautum þrár okkar: lýsingar á matseðlum veitingastaða verða sífellt fjálglegri, skrautlegri, dansa á mörkum prósaljóðsins.

Yngri rithöfundur sem deilir ást Blyton á vel nestuðum söguhetjum og virðist einnig hafa áttað sig á þessu fagra og gagnkvæma sambandi matar og barnabóka er J.K. Rowling, höfundur frægustu barnabóka heims, bókaflokksins um Harry Potter. Harry sjálfur hefur raunar meiri áhuga á mat og á um leið í flóknara sambandi við hann en margar söguhetjur barnabókanna. Hann elst upp hjá skyldmennum sínum sem eins og frægt er orðið koma illa fram við hann, búa um hann í þröngri kompu undir stiganum og svelta hann reglulega þegar sá gállinn er á þeim. Það er því kannski ekki mikil furða að söguhetjan knáa fái slíka matarást á Hogwarts-skóla og matmóður sinni, frú Weasley, þegar fram líða stundir.

Í Hogwartsskóla er borin á borð hver veislumáltíðin á fætur annarri. Harry og vinir hans gæða sér á hverjum morgni á ristaðu brauði með þykku marmelaði, steiktum pylsum, eggjum og beikoni og skola herlegheitunum niður með könnum af kældum graskerssafa. Þau borða kjötbúðing, glóðarsteiktan kjúkling og kartöflumús, graskersbökur, samlokur og kótelettur, karamellubúðing, melassabökur og súkkulaðifrauð. Og þá er enn ónefnt sælgætið sem streymir frá galdraverslunum í Skástræti og þorpinu Hogsmeade.

Mynd með færslu
 Mynd: Warner Bros
Setið til borðs í Hogwartsskóla.

Hér er gripið ofan í lýsingu á jóladagsmorgni í Hogwartsskóla á fjórða ári vinanna við skólann, þar sem Harry opnar gjafirnar sínar:

„Frá Siriusi fékk hann handhægan pennahníf með aukagræjum til að opna hvern lás og leysa hvern hnút; og frá Hagrid gríðarstóran sælgætiskassa með öllu því góðgæti sem Harry hélt upp á – þar voru fjöldabragðbaunir Berta Botts, súkkulaðifroskar, besta kúlutyggjó Bubba og hvissandi púðurkerlingar. Síðan var auðvitað líka pakki frá frú Weasley og í honum var ný peysa (græn, með mynd af dreka – Harry gerði ráð fyrir að Charlie hefði sagt henni allt um gaddhalann) og risaskammtur af heimagerðum kjötbökum.“

Að gjafaopnun lokinni er haldið niður í hádegisverð, og ég les: „þar sem að minnsta kosti hundrað kalkúnar voru á boðstólum, álíka margir jólabúðingar, og stórir hraukar af galdrakexi Geirlaugs.“

Rowling ærir upp í lesendum sínum hungrið – og spilar þar inn á samtengdar rásir sultar og bókasvengdar. Kannski má gífurlegar vinsældir bókaflokksins um Harry Potter að einhverju leyti rekja til svignandi hlaðborðanna í stóra sal Hogwartsskóla og girnilegra sælgætistegunda í hillum Sælgætisbarónsins?

Og hér er raunar gengið lengra, fjórði veggurinn – milli ilmandi matarrétta og svangs lesanda – rofinn.  Eftir útgáfu bókanna um galdradrenginn hafa litið ljós ógrynnin öll af matreiðslubókum og matarbloggum með það markmið að fullkomna veitingarnar sem lýst er í bókaflokknum og aðdáendur hans ásælast svo mjög.

Í því stórveldi sem hefur myndast í kringum sagnaheim Harry Potter er framleiðsla á helstu kræsingunum löngu hafin. Í kvikmyndaverinu í London, sem nú er búið að breyta í safn, er hægt að kaupa súkkulaðifroska og sykurfjaðrir og eftirlæti allra: Fjölbragðabaunir Berta Botts. Á veitingastaðnum má líka gæða sér á hunangsöli, hinu sama og Harry og vinir hans ylja sér með á kránni Þremur kústum. Um það segir í bókinni Harry Potter og fanginn frá Azkaban: „Ron kom aftur fimm mínútum síðar með þrjár drykkjarkönnur fullar af rjúkandi heitu hunangsöli. Harry drakk áfergjulega. Þetta var ljúffengasti drykkur sem hann hafði nokkurn tíma bragðað og honum hlýnaði um allan kroppinn.“

Og þar bregðast töfrarnir galdraheiminum öllum. Hunangsölið í London er kalt, dísætt og með væminni, klístraðri froðu sem lyktar eins og lélegt vanilluilmkerti. Það er afgreitt yfir borð í sérlegum minjakrúsum, plastbollum með vörumerki sem neytendur mega svo eiga. Súkkulaðifroskarnir hoppa hvorki né reyna að flýja eigendur sína. Fjölbragðabaunirnar valda reyndar ekki vonbrigðum – þar er vissulega að finna baunir bæði með hor- og eyrnamergsbragði.

En hunangsölið er auðvitað ekkert líkt því sem það á að vera , ekki nálægt því að framkalla sömu ánægju og neysla þess gerir hjá þeim sem les. Sagan sigrar raunveruleikann, hversu mjög sem við þráum að borða hana og verða þar með hluti af henni. Og sjálf hef ég  svo sem þverrandi áhuga á nautatungu með steinselju. Á borði.

En í orði...  Að lesa er að borða er að hungra – eftir sífellt fleiri sögum, sífellt fleiri framandi réttum sem aldrei kólna, sem alltaf eru nýbakaðir og ilmandi. Að lesa er að hungra - að teygja sig í eina bók enn, eins og eina piparkökuna enn, eða rétt annan dreitil af ímynduðu, rafgullnu hunangsöli.

Hér fer það saman – óseðjandi hungrið eftir næringu – í mat og bókum.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Þýðandi Harry Potter 26 ára flugfreyja og sálfræðinemi

Bókmenntir

Vildi ráða öllu sjálf

Bókmenntir

Bóklestur barna á uppleið

Bókmenntir

Lesandi foreldrar eiga lesandi börn