Af hverju spila hommar ekki fótbolta?

Mynd: RÚV/samsett mynd / RÚV/samsett mynd

Af hverju spila hommar ekki fótbolta?

25.11.2017 - 02:12
Hvaða þýðingu myndi það hafa fyrir unga samkynhneigða karlkyns knattspyrnumenn, sem burðast inni í skápnum með kynhneigð sína, ef besti fótboltamaður heims kæmi út úr skápnum? Sá fallegasti, umtalaðasti og besti. Myndi það hjálpa ungum samkynhneigðum leikmönnum að koma úr felum, eða er forneskjulegt karlaveldi knattspyrnunnar einfaldlega of íhaldssamt til þess að samkynhneigðir leikmenn eigi þar einhverja möguleika?

Fáir hommar atvinnumenn í fótbolta

Í sjötta þætti Markmannshanskanna hans Alberts Camus er fjallað um það hvers vegna hommar spila ekki fótbolta. Vissulega spila jú einhverjir hommar fótbolta - en þeir eru ekkert sérstaklega góðir í fótbolta, eða ná neitt sérstaklega langt ef litið er á hreina og beina tölfræði. Sem er áhugavert, því í hinum vestræna heimi eiga samkynhneigðir karlmenn, yfirleitt, völ á því að lifa að öllu leyti sambærilegu lífi og gagnkynhneigðir; njótu sömu réttinda og fá sömu tækifæri. En innan heims atvinnuknattspyrnunnar finnast þeir varla.

Rætt er við Eddu Garðarsdóttur, fyrrverandi landsliðskonu í fótbolta og Sigríði Ásgeirsdóttir, menningarfræðing, um ástæðurnar sem liggja að baki því hvers vegna jafn fáir karlkyns atvinnuknattspyrnumenn hafa komið út úr skápnum. 

Mynd með færslu
 Mynd: Tomasz Kolodziejski - RÚV
Edda Garðarsdóttir spilaði 103 A-landsleiki fyrir Ísland

„Lesbíurnar hafa alltaf verið þarna" 

Edda er lesbía og innan kvennknattspyrnunnar hefur það ekki þótt tiltökumál. Margar af bestu knattspyrnukonum heims eru samkynhneigðar.

„Það hefur alltaf verið partur af hópíþróttum að lesbíurnar eru þarna," segir Edda. En innan karlaboltans ræður umhverfi karlmennskunnar ríkjum, og það getur reynst fjandsamlegt umhverfi.

„Prósenta þeirra sem koma út úr skápnum er mun lægri karlamegin, í öllum íþróttum. Þú þarft að vera sterkastur, fljótastur og bestur. Þetta er ekki beint staðalímynd hommans," segir Edda.

Mynd með færslu
 Mynd: Rob Casey - Picture this Scotland
Sigríður segir fótbolta að mörgu leyti mjög „hommalega" íþrótt. Mikið sé um snertingar og nekt. Paul Gascoigne og Ally McCoist fagna marki.

Mikilvægt að fá samkynhneigðan leikmann í hæsta gæðaflokki 

Árið 2014 kom þýski knattspyrnumaðurinn Thomas Hitzlsperger út úr skápnum, en hann lék lengi við góðan orðstír í ensku úrvalsdeildinni. Hitzlsperger er líklega besti knattpyrnumaðurinn sem hefur komið út úr skápnum, og síðan hann kom út hafa fáir fylgt í kjölfarið. Í þættinum er rætt um hvort það skipti einhverju máli að samkynhneigðir leikmenn eignist sendiherra í hæsta gæðaflokki. Sendiherra á borð við Ronaldo. Sigríður segir að svo sé.

„Ég held að það myndi líka hafa mikil áhrif á yngri menn og kynslóðirnar sem kæmu á eftir. Það þarf einhver að rífa plásturinn af, því miður. Ég held að það sé mikilvægt að hann sé góður í fótbolta, það væri mjög áhugavert. Hingað til hafa þetta í besta falli verið miðlungsleikmenn."

Dökku hetjurnar Bateman og Ronaldo

Líkt og Patrick Bateman, aðalpersóna skáldsögunnar American Psycho eftir Brett Easton Ellis, er Ronaldo ægifagur, hæfileikaríkur, sjarmerandi og hugsar vel um sjálfan sig. Þótt voðaverk Patrick Batemans eigi lítið skylt við þá kenningu um að Ronaldo gæti mögulega, hugsanlega, kannski verið samkynhneigður, eiga þeir eitt og annað sameiginlegt. Væri Ronaldo samkynhneigður, burðast hann líklega við samskonar ímyndarvanda og Bateman. Hann veit ekki hver eða hvað hann er.

Því líkt og Bateman, er Ronaldo líka andhetja, eða dökk hetja. Í Íslendingasögunum lesum við um bæði dökkar og ljósar hetjur, Egil Skallagrímsson annars vegar og Gunnar á Hlíðarenda hins vegar. Argentínumaðurinn Lionel Messi er ljósa hetjan í karlafótboltanum, hógværðin uppmáluð og hvers manns hugljúfi. Ronaldo er hinsvegar dularfullur, drambsamur og umdeildur. Og gefur þá ekki augaleið að Ronaldo glími við sálarböl líkt og svo margar af dökku hetjum bókmenntanna.

Því yrði það kannski fegursta sagan, ef Ronaldo kæmi á endanum út úr skápnum. Sá versti og besti á sama tíma, sá elskaðasti og hataðasti. Stærsta nafnið, konungur konunganna, sem boða myndi fagnaðarerindið til þúsunda annarra knattpyrnumanna um víða veröld sem burðast með það sálarböl að vera í felum með kynhneigð sína.

Markmannshanskarnir hans Alberts Camus eru á dagskrá á laugardögum á Rás 1 í vetur. Í þáttunum er fjallað um aðrar og óþekktari hliðar íþróttanna. Tæknimenn þáttarins eru Kolbeinn Soffíuson og Hrafnkell Sigurðsson. Lesari er Guðni Tómasson. 

Tengdar fréttir

Menningarefni

Féll á þorrablóti Íslendinga í London

Bókmenntir

Um fagurfræði kappleikjalýsinga

Menningarefni

„Ég varð að leyfa efnilega Pavel að deyja"

Trúarbrögð

Stalst í kirkju fyrir leikinn gegn Króötum