Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Af fölskvalausum galsa og flötum Finnum

Mynd með færslu
 Mynd: Alexandra Howard - Iceland Airwaves photostream

Af fölskvalausum galsa og flötum Finnum

09.11.2018 - 16:33

Höfundar

Á öðrum í Airwaves fara erlendu böndin á stjá en í gær voru það breski skrýtipopphópurinn Superorganism og eistneski ruslrapparinn Tommy Cash sem stóðu upp úr.

Ég hóf ég leikinn á Bagdad-bræðrunum á Húrra. Þeir eru í framvarðasveit nýrrar indí-senu sem hefur myndast í kringum félagsskapinn Póst-dreifingu sem gefur út safnplötur, framleiðir myndbönd og setur á fót tónleika og viðburði. Bagdad Brothers hafa smátt og smátt bætt við sig vögnum aftan á hæp-lestina og það kæmi mér ekki á óvart að þeir færu að detta í reglulega spilun á Rás 2 von bráðar. Þeir eru með tæran og sumarlegan gítarhljóm, hugmyndaríkar lagasmíðar, flotta texta á íslensku og svo einstaklega sjarmerandi söngrödd. Svo líta þeir vel út líka – frábært hár.

Breska söngkonan Tawia var með eins sterka rödd en flöt lög. Á eftir fölsvkalausa galsanum í Bagdad Brothers voru sálarmaríneraðar ballöður Tawiu of faglegar, lágstemmdar og þvingaðar. Allt annað var upp á teningnum hjá eistaneska rave-rapparanum Tommy Cash. Hann er það sem maður kallar fyrirbæri, og sem flytjandi vinnur hann markvisst með klisjur og staðalímyndir um Austur-Evrópubúa, með sítt að aftan og klæddur í hvít hopphopp-föt. Hann rappar með þykkum hreim og tónlistin ber keim af euro-tekknói tíunda áratugarins. Þetta er allt svona í hálf-gríni, og í raun jafn mikill sviðsgjörningur og það er tónlist, hugmynd- og fagurfræðin minna mig talsvert á hin suður-afrísku Die Antwoord. Ég efast um ég myndi setja þetta á fóninn heima í stofu en Tommy Cash var eiturhress á sviðinu í Hafnarhúsinu og skemmtanagildið var ofarlega á blaði.Á leiðinni upp í Silfursali að sjá Haiku Hands barst mér til eyrna að finnska poppstjarnan Alma væri að spila í Hafnarhúsinu. Ég og föruneytið snerum við á punktinum aftur í Listasafni en hefðum betur látið það ógert því tónlist Ölmu var álíka áhugaverð og kælivökvi. Þetta var svona þriðja flokks verksmiðjupopp, afgangslög sem Rihanna, Katy Perry og stærri poppstjörnur hafa hafnað. Algjört bland.is og almennska sem sveif yfir vötnum. Ástralska þríeykið Haiku Hands var hins vegar þrusukraftmikið rapp- og rafskotið stelpupopp. Þær voru í glitrandi búningum með kóreógrafaðar danshreyfingar og allt sitt á hreinu á sviðinu í Silfursölum.

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Sigurður Sigurjónsson - Iceland Airwaves photostream
Gleðin var því sem næst taumlaus.

Furðuhópurinn Superorganism stormaði á svið í Listasafninu í skrýtnum búningum og dúndruðu út litríku ofskynjunarpoppi í hæsta gæðaflokki. Sveitin er leidd af japönsku söngkonunni Oronoo sem er á hæð við 10 ára barn og gáskinn á sviðinu var geigvænlegur. Þau minntu mig á Architecture in Helsinki með dassi af anime og tölvuleikjatónlist – það skemmtilegast sem ég hef séð á hátíðinni hingað til. Ég náði síðan rétt svo í skottið á rappþríó-inu Injury Reserve sem fóru hamförum á sviðinu í hráu og tryllingslegu flæði. Breski tónlistarmaðurinn Jimothy Lacoste lokaði svo kvöldinu með vel kaldhæðnu rafpoppi sem rann vel ofan í áhorfendur á Húrra.

Tengdar fréttir

Tónlist

Airwaves: Litið við á æfingu hjá Högna

Tónlist

Snjókornapopp og geðrofsballöður stóðu upp úr

Tónlist

Beint á vínyl – Airwaves-hægvarp í Hljóðrita

Tónlist

8 Airwaves-bönd sem vert er að bera sig eftir