Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Ævintýraleg aukning í flugumferð á Íslandi

30.07.2015 - 19:52
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Aukning á flugi til og frá Íslandi hefur verið með eindæmum undanfarin ár. Hjá Isavia er því spáð að 10 milljónir fari um Keflavíkurflugvöll árið 2030. Vendipunktur í þróun flugumferðar til og frá Íslandi varð í kjölfar eldgossins í Eyjafjallajökli sumarið 2010.

Frá 2011 hefur flugumferð um Keflavíkurflugvöll aukist um 133%. 

Árið 1987, þegar Flugstöð Leifs Eiríkssonar var tekin í notkun, var farþegafjöldi 750 þúsund. Tíu árum seinna voru farþegar milljón, rúmar tvær milljónir 2005 og í ár stefnir í að þeir verði 4,8 milljónir. Er vöxturinn einn sá mesti í Evrópu undanfarin ár. Samkvæmt spá Isavia verður fjöldi ferðamanna 10 milljónir árið 2030 og 14 milljónir 2040.

„Ef við horfum á júlí og ágúst á Keflavíkurflugvelli þá erum við með allt að 75 lendingar á hverjum degi, 18 stæði við flugstöðina sem eru fullnýtt á álagstímum og allt að 25.000 manns sem eru að fara í gegnum mannvirkin á sólarhring á allra stærstu dögunum,“ segir Guðmundur Daði Rúnarsson, aðstoðarframkvæmdarstjóri Isavia.

Umsvif Icelandair og Wow hafi aukist í takt við þessa þróun. Flugvélum Icelandair hefur fjölgað úr 12 árið 2009 í 24 í ár. Icelandair hefur auk þess samið um kaup á 16 nýjum Boeing 737 vélum en hluti þeirra á að koma í stað eldri véla. Wow Air var með fjórar vélar á leigu í fyrra, þær eru sex í ár og verða níu á því næsta. Þá verða starfsmenn Wow nær tvöfalt fleiri, fara úr 250 í 450. Við þetta bætast aukin umsvif erlendra flugfélaga.

„Til dæmis Delta er að fljúga hér yfir sumarið, Lufthansa að byrja. British Airways er að byrja hér í haust. Wizz eru nýbyrjaðir að fljúga beint til Póllands, Easy Jet hefur að sjálfsögðu stækkað gríðarlega mikið á örfáum árum til og frá flugvellinum og það mætti halda áfram að telja.“

Þessi miklu umsvif þýða einnig fjölgun starfsmanna á Keflavíkurflugvelli. Samkvæmt skilgreiningu Alþjóðasamtaka flugvalla skapast um það bil eitt starf á hverja þúsund farþega. Miðað við farþegafjölda í ár eru því 4.800 bein störf hjá öllum rekstraraðilum á Keflavíkurflugvelli.

 

asgeirjo's picture
Ásgeir Jónsson
Fréttastofa RÚV