Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ættum að gera alþjóðastarfi hærra undir höfði

22.06.2019 - 12:53
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Nýr framkvæmdastjóri Evrópuráðsins verður kosinn í næstu viku. Fulltrúi Íslands segir alþjóðastarf ekki fá næga athygli hérlendis, en allt slíkt samstarf hafi mikla þýðingu fyrir smáþjóð eins og Ísland.

Nýr framkvæmdastjóri kosinn í næstu viku

Evrópuráðið var stofnað 5. maí 1949 eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar og er 70 ára í sumar. Alþingi hefur átt aðild að Evrópuráðsþinginu síðan 1950 og í dag eru þar 47 aðildarríki. Í næstu viku kýs ráðið sér nýjan framkvæmdastjóra, en Thorbjørn Jagland lætur af því embætti eftir tíu ára starf. Kosið verður á milli utanríkisráðherra Belgíu og Króatíu, þeirra Didier Reynders og Maria Peichinovich-Burich. 

Mikil tímamót

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, er varaformaður Íslandsdeildar Evrópuráðsins og formaður laga- og mannréttindanefndar ráðsins. Hún segir þetta mikil tímamót fyrir stofnunina. 

„Á sama tíma hafa verið miklar deilur um aðild Rússa að Evrópuráðsþinginu og Evrópuráðinu. Rússar hafa ekki verið að borga aðildargjöldin sín sem þeir hafa lögbundna skyldu til þess að gera vegna þess að þeim var vísað úr Evrópuráðsþinginu í kjölfar þess að þeir réðust inn í Úkraínu,” segir hún. 

Evrópuráðið hafi mikla þýðingu í alþjóðasamhengi, ekki síst fyrir Ísland. 

„Vegna þess að þarna stöndum við jafnfætis 46 öðrum þjóðum í alþjóðasamvinnu um mannréttindi, lýðræði og réttarríki. Við erum ekki aðilar að ESB, en við erum fullgildir og jafngildir aðilar í Evrópuráðinu og þetta er gríðarlega góður og stór vetvangur til að kynnast öðrum þjóðum, deila okkar þekkingu og þiggja þekkingu annarsstaðar frá.” 

Skortur á áhuga og þekkingu á alþjóðastarfi hérlendis

Hún upplifir takmarkaðan áhuga og þekkingu á alþjóðastarfi hérlendis, bæði í samfélaginu og á þinginu. 
 
„Ég held að við ættum að gera alþjóðastarfinu okkar miklu hærra undir höfði. Við erum smáþjóð og við eigum mjög mikið undir samskiptum og viðskiptum við aðrar þjóðir og þess vegna finnst mér synd að við séum ekki að nýta tækifærin okkar betur.” 

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV