Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ættu „frekar að banna reykingar en umskurð“

20.02.2018 - 10:28
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia
BBC Newsnight fjallaði nokkuð ítarlega um frumvarp Silju Daggar Gunnarsdóttur um bann við umskurði drengja sem vakið hefur heimsathygli. Jonathan Arkush, forseti samtaka gyðinga í Bretlandi, segir frumvarpið vera beina árás á trúfrelsi. Ef Íslendingar vilji banna eitthvað sem þeir telji skaðlegt ættu það frekar að vera reykingar en umskurður.

Óhætt er að segja að frumvarp Silju Daggar hafi vakið mikla athygli. Forystumenn múslima, gyðinga, kaþólika sem og biskup Íslands hafa gagnrýnt frumvarpið en Umboðsmaður barna í Noregi vill að þarlend stjórnvöld feti í fótspor Íslendinga og taki upp svipað bann.

BBC Newsnight ræddi í gærkvöld við Jonathan Arkush, forseta sambands gyðinga í Bretlandi, og Dr. Anthony Lempert.

Arkush sagðist ekki vita um neinn gyðing sem sjái eftir aðgerðinni. „Við erum stolt af því hvernig við lítum út. Umskurður er lykilatriði í okkar trú og ég er mjög ánægður að foreldrar mínir skuli hafa tekið þessa ákvörðun fyrir mig.“

Dr. Lempert sagði drengina einfaldlega vera of unga til að gangast undir aðgerð af þessu tagi. „Ef aðgerðin þjónar engum læknisfræðilegum tilgangi ætti það að vera ákvörðun viðkomandi hvort hann vilji gangast undir hana eða ekki.“