Ættleiddur til Íslands og skilað eftir ár

02.11.2018 - 19:58
Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Það var auðveldara að vera umkomulaus í Kalkútta en í Reykjavík, segir Hasim Ægir Khan. Hann fæddist á Indlandi en var ættleiddur til Íslands ellefu ára en svo skilað ári síðar. Hann flæktist á milli fósturheimila hér á landi eftir að ættleiðingarforeldrar hans hættu við að ættleiða hann og leigði einnig með rónum í miðborginni, á meðan hann lauk námi í Austurbæjarskóla. 

Saga Hasims er átakanleg. Þegar hann var sex ára setti ný stjúp-amma hann einan upp í lest í Gömlu-Delhi án skýringa og endaði hann í Kalkútta þar sem hann bjó á götunni til að byrja með og síðan á barnaheimilum við hryllilegar aðstæður og ólýsanlegt ofbeldi. Þegar hann var ellefu ára fékk Hasim von um betra líf þegar hann var ættleiddur til Þorlákshafnar. Hann bjó hjá nýju fjölskyldunni sinni í ár, eða þangað til honum var skilað. Hann er eina barnið á Íslandi sem hefur verið ættleitt - og skilað. Hann segist hafa fengið að vita að Ísland væri ríkt land og að hann væri að fara til fjölskyldu sem myndi búa honum gott heimili og öruggt líf. 

„Ég hlakkaði til í raun og veru, ég er að fá fjölskyldu og svoleiðis en svo bara eftir ár var mér hafnað og það var svolítið erfitt - mér leið eins og ég væri kominn aftur út á götu á Indlandi,“ segir hann. „Ég átti aldrei fastan stað og mismundandi fólk sem kom í kringum mig til að hjálpa mér og bara ég var alltaf að leita eftir að ég myndi finna stað til að setjast niður hjá einni fjölskyldu. Það var mjög erfitt,“ segir hann.

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir blaðamaður hefur skrifað sögu Hasims. Hann segir að erfitt hafi verið að rifja upp æsku sína við vinnslu bókarinnar. Minningarnar séu mjög sárar. Hann sé ekki reiður í dag, en hann muni aldrei jafna sig. Hann segir einnig að það hafi verið auðveldara að mörgu leyti að vera á götunni í Kalkútta en umkomulaus í Reykjavík. Í Kalkútta hafi hann ekki verið einn.  „Ég sá aðra krakka í sömu stöðu og ég en í Reykjavík var ég aleinn. Og það var svolítið erfiðara að vera í Reykjavík , ekki svolítið, það var erfitt, að vera í Reykjavik heldur en Kalkútta,“ segir Hasim

Hasim bjó hér á landi þangað til fyrir fimm árum þegar hann flutti til Noregs þar sem hann nú býr. Framkvæmdastjóri Íslenskrar ættleiðingar segir þetta einsdæmi og ólíklegt sé að svona myndi gerast í dag. Lagaumhverfið í dag sé annað og stuðningur við fjölskyldurnar mun meiri. „Það að fara í gegnum allan þennan feril og enda aftur á götunni er auðvitað þyngra en tárum taki,“ segir hann.

Þóra Kristín segir að sagan eigi erindi við okkur í dag því milljónir barna séu í þeirri stöðu að vera á flótta og upp á ókunnugt fólk komið. „Og við erum sjálf búin að horfa upp á það í fjölmiðlum oft á ári að það er verið að taka börn, rífa þau úr aðstæðum hérna þar sem þau hafa verið í skóla árum eða mánuðum saman.“ Og með einu pennastriki sé tekin ákvörðun um að fleygja þeim í yfirfullar flóttamannabúðir. „Saga Hasims kennir okkur að börn þau þola þetta ekki vel. Þau verða reiðir einstaklingar,“ segir hún.

Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
sigridurda's picture
Sigríður Dögg Auðunsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi