Ættingjar rútufarþeganna á leið til Íslands

29.12.2017 - 22:48
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Margir ættingjar kínversku rútufarþeganna sem lentu í slysi í Eldhrauni vestan Kirkjubæjarklausturs á miðvikudag eru nú á leið til landsins. Þetta kemur fram í frétt á vef kínverska sendiráðsins á Íslandi. Þar segir að ættingjarnir hafi fengið aðstoð við að komast leiðar sinnar frá bæði íslenskum og kínverskum yfirvöldum.

Kona á þrítugsaldri fórst í slysinu og var úrskurðuð látin á staðnum. Tveir farþegar eru enn í lífshættu á gjörgæsludeild og fimm til viðbótar eru enn á spítala á almennum deildum. Líðan þeirra er stöðug. Þrír hafa verið útskrifaðir af spítala. 44 kínverskir ríkisborgarar voru í rútunni ásamt íslenskum bílstjóra.

Í frétt kínverska sendiráðsins er íslenskum stjórnvöldum, lögreglu, almannavörnum, heilbrigðisyfirvöldum og öðrum færðar innilegar þakkir fyrir stórkostlegt björgunarstarf. „Þakklæti okkar nær einnig til allra þeirra Íslendinga sem fundu til með slösuðum ríkisborgurum Kína og buðu fram aðstoð sína. Við höfum fundið fyrir vinarþeli íslensku þjóðarinnar í garð Kína og kínversku þjóðarinnar,“ segir í fréttinni.

Þá er tekið fram að ýmsar sögur séu á kreiki um ástæður slyssins en að þær upplýsingar hafi fengist frá lögreglunni að sögurnar séu ekki sprottnar þaðan og að engar upplýsingar verði veittar um rannsóknina fyrr en að henni lokinni. Fjölmiðlar eru einnig beðnir að flytja hlutlausar, ábyrgar og sanngjarnar fréttir af málinu.

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi