Ættgöfug skáldlæða fagnar útgáfu ljóðabókar

Mynd: RÚV/Samsett mynd / RÚV/Samsett mynd

Ættgöfug skáldlæða fagnar útgáfu ljóðabókar

12.09.2019 - 10:53

Höfundar

Ljóðabókin Jósefínubók sem kom út á dögunum hefur þá sérstöðu í jólabókaflóðinu að höfundur hennar er sögð vera Jósefína Meulengracht Dietrich, roskin og ráðsett læða frá Akranesi.

„Auðvitað var kötturinn með umboðsmenn. En það liggur alveg ljóst fyrir að það var kötturinn sem orti, og ég samdi við,“ segir sunnlenski bóksalinn Bjarni Harðarson sem er útgefandi bókarinnar. Bjarni segir að í samningaviðræðum við Jósefínu hafi hann fyrst reynt að bjóða ógrynni af kattamat en læðan hafi hins vegar staðið fast á sínu; að afsala sér höfundarlaunum og senda þau til Kattholts. „Þar naut Jósefína aðhlynningar í einu af sínu fyrra lífi, en hún hefur átt mjög langa og brösuga ævi.“ Bjarni segir að þó þetta sé fyrsta bók skáldlæðunnar hafi Jósefína ort í nokkur ár og birt talsvert af ljóðum á Facebook-síðu sinni, og síðum þar sem hagyrðingar koma saman. „Hún er fyrir löngu orðin virt meðal skálda í landinu, og útgáfan var þess vegna löngu tímabær.“

Á laugardaginn verður svo blásið til útgáfuhófs Jósefínubókar í Kattholti þar sem lesið verður upp og bókin til sölu til styrktar Kattholti. Bjarni segir að þrátt fyrir að hafa verið á götunni í ákveðinn tími þá sýni nafnið, Jósefína Meulengracht Dietrich, að hún sé komin af góðum ættum. „En hún lenti eins og allir geta lent, út úr þessu borgaralega lífi. Og varð að hafast við á götunni. En það var mikilvægt í þroska hennar. Þjáningin er listamanninum alltaf mikill innblástur, og hún skín í gegn í sumum kveðskap Jósefínu.“ Hann segir að vegna smávægilegra veikinda sé ekki alveg víst hvort Jósefína treysti sér til að heiðra útgáfuhófið með nærveru sinni. „En það verður haldið á laugardaginn klukkan tvö í Kattholti, hún var mjög ákveðin að það mætti ekki frestast.“

Ljóð 42 úr Jósefínubók:

Mannfólkið er merkilegt og mesta furða
hvað upp úr því sem stríður straumur
stendur mikill orðaflaumur.

Talmál flestum tekst að læra á tveimur árum
en furðulegt er frá að segja
hve fáir geta lært að þegja.

Andri Freyr Viðarsson og Hafdís Helga Helgadóttir ræddu við Bjarna Harðarson í Síðdegisútvarpinu.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Rammpólitísk skáldalæða gefur út ljóðabók