Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

„Ætlum að taka þetta af mikilli hörku“

01.02.2017 - 10:03
Benedikt Jóhannesson
 Mynd: RÚV
Það hefur vantað pólitískan baráttumann í fjármálaráðuneytið sem segði skattsvikum stríð á hendur. Tími sé kominn til að berjast gegn því með öllum ráðum. Þetta sagði Benedikt Jóhannessn, fjármála- og efnahagsráðherra, í Kastljósi í gærkvöldi. Hann hyggst fylgja skýrslu starfshóps um skattaskjól eftir með frekari rannsóknum og aðgerðum. Seðlamagn í umferð á Íslandi sé áhyggjuefni sem verði að taka á, enda sé það eitt skýrasta dæmið um svart hagkerfi. Peningaþvættiseftirlit verði aukið.

Kastljós fjallaði í byrjun vikunnar um Skýrslu starfshóps um eignir Íslendinga á aflandssvæðum sem birt var í byrjun árs. Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, ræddi efni skýrslunnar í Kastljósi. Skýrslan bendir á fjölda atriða sem ýmist þarf að takast á við með frekari rannsóknum eða breyttu regluverki. Og það kveðst Benedikt ætla að gera.

„Þetta er svört skýrsla,“ sagði hann í Kastljósi í gærkvöldi. „Manni svelgist á að sjá þetta. Og það er ljóst að þó ákveðin óvissa ríki um umfang aflandsfélaga núna er þau eru ekki horfin.“

Tuga milljarða tap ríkissjóðs

Ríkissjóður varð af allt að 7 milljörðum króna á ári frá 1990 vegna fjármuna sem flutt var í skattskjól. Það að komast hjá sköttum var ástæðan. Stjórnvöld voru vöruð við og bent á regluverk sem flest nágrannalönd höfðu sett - án árangurs. Vísbendingar komu einnig fram sem benda til þess að svindlað sé á inn- og útflutningi, með þeim afleiðingum að skattar lækki og vöruverð hækki. Stjórnvöld gerðu auk þess mistök við gerð tvísköttunarsamninga við Holland og Lúxemborg, að sögn formanns stýrihópsins. Mistök sem í raun gerðu Holland og Lúxemborg að skattaskjólum.

Bendikt segir það auðvitað sláandi að sjá nefndar tölur á milli 5-15 milljarðar króna sem ríkissjóður hafi orðið af á ári hverju vegna skattaundanskota eins og skotið er á í skýrslunni. Því sé ljóst að fara verði í ákveðnar aðgerðir strax.

Rannsaka inn- og útflutning

„Ég hef ákveðið leggja strax í frekari skoðun á því sem kallað hefur verið faktúrufölsun,“ sagði ráðherran en ólögleg milliverðlagning er talin eiga við um 10% alls inn- og útflutnings, samkvæmt vísbendngum starfshópsins sem taldi það kalla á frekari rannsókn, enda væru gögn misvísandi og þyrftu frekari yfirlegu. Slík háttsemi hefur oftsinnis komið upp á síðustu öld og þess vegna sé nauðsynlegt að kanna vísbendingar um að slíkt eigi sér enn stað.

Gat sem þarf að loka

Upplýsingaflæði milli Seðlabankans og skattayfirvalda verður einnig að laga að sögn Benedikts enda sé bent á að á hafi skort, til dæmis í tengslum við Fjárfestigngaleið Seðlabankans. Tvísköttunarsamninga og galla í þeim verði að fara rækilega yfir.

„Þetta er gat og við verðum að loka þessu gati,“ sagði fjármálaráðherra. 

Bendikt kvaðst þó ekki hrifinn af bönnum eins og þeim sem stungið hefur verið upp á og gera ráðgjöf við að svíkja undan skatti, ólöglega. 

Svarta hagkerfið stækkar

„Við verðum að grípa í taumana, bæði þarna og eins vegna svarta hagkerfisins,“ sagði ráðherran og benti á að mikil aukning á reiðuféi í umferð væri jafnan skýrt dæmi um svarta atvinnustarfsemi, skattsvik og peningaþvætti. 

Með milljón undir koddanum?

„Það er mjög sérstakt að á Íslandi sé það þannig að meðal fimm manna fjölskylda á Íslandi sé með 900 þúsund krónur í reiðufé í sinni umsjá,“ sagði ráðherra sem telur rétt að skoða lagasetningu sem miði að því að reisa skorður við viðskipti með reiðufé meðal annars með því að leyfilegt sé að greiða mönnum út í reiðufé og greiða fyrir heilu bílakaupin með reiðuféi. 

Peningaþvætti mætt af hörku

„Ég vil undirbúa löggjöf þar sem þetta verður gert ólöglegt,“ segir Benedikt sem telur þetta benda til peningaþvættis sem auka verði eftirlit með hér á landi. Eins og fram kom í umfjöllun Kastljóss á mánudagskvöld, mátti litlu muna að Íslendingar yrðu settir á svartan lista OECD vegna skorts á eftirliti með peningaþvætti, sem stjórnvöld höfðu skuldbundið sig til. Peningaþvætti er nátengt skattsvikum, ólöglegri starfsemi og svartri atvinnustarfsemi. 

„Það var gerð athugasemd við þetta af OECD, sem taldi okkur ótæk í þetta samstarf. Innanríkisráðuneytið er yfir peningaþvættismálum og fjármálaráðuneytið ætlar að vinna þetta með því ráðuneyti og skattayfirvöldum. Við ætlum að taka á því af mikilli hörku."

Hefur vantað pólitíska baráttumenn 

Spurður hvers vegna hann telji að stjórnvöld fyrri tíma hafi ekki brugðist við ítrekuðum ábendngum, eigin skýrslum og hvatningum þess efnis að grípa í taumana vegna skattaundanskota, sagði Benedikt að svo virtist sem baráttuandann hefði vantað til þess að grípa inn í:

„Ég held að það hafi kannski vantað pólitískan baráttumann fyrir þessu; það vantaði það að fjármálaráðherrann sjálfur segði þessu svindli stríð á hendur. Þá á ég við bæði aflandsviðskiptin og svarta hagkerfið og við verðum bara að berjast gegn því með öllum þeim ráðum sem við höfum.“

helgis's picture
Helgi Seljan
Fréttastofa RÚV