Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Ætlar ekki með spítalann fram af brúninni

27.09.2013 - 15:12
Mynd með færslu
 Mynd:
Björn Zoëga, sem sagði upp störfum sem forstjóri Landspítalans í dag, segir að ekki verði hafist handa við að undirbúa né byggja nýjan spítala á næsta ári né þarnæsta af fullum krafti. Það sé tímabært að annar taki við keflinu miðað þær hugmyndir sem eru um fjármögnun spítalans og umhverfi hans.

Tilkynnt var á vef Landspítalans að Björn hefði sagt upp störfum. Hann hefur gegnt embætti forstjóra Landspítala í fjögur ár. Hann var skipaður forstjóri  í september 2010 en hafði verið starfandi forstjóri frá 15. september 2009. 

Björn kveðst í samtali við fréttastofu vonast til að halda áfram að starfa að hluta til sem læknir og þá sé hann að skoða nokkur tilboð, hann er þó ekki á leið úr landi.

Björn segir að það hafi átt stóran þátt í ákvörðun hans að ekki verði hafist handa við uppbyggingu nýs spítala á næsta ári eða þarnæsta af fullum krafti. „Bæði það og svo hef ég áhyggjur af því hvernig hægt verður að fjármagna spítalann á næsta ári.“

Björn kveðst hafa margoft talað um að rekstur spítalans hafi verið kominn að bjargbrúninni. „Og ég ætla ekki taka þátt í því að taka fram af brúninni. Ég held að við verðum aðeins að staldra við  og einhver annar verði að taka við keflinu til að leiða spítalann í því umhverfi sem verður boðið upp á á næstunni“

Björn segir að það þurfi að byggja upp Landspítalann og heilbrigðiskerfið þar sem spítalinn leiki algjört lykilhlutverk. „Það þarf að huga að því að bæta í reksturinn, styrkja áfram tækjakaup og endurnýja húsnæðið. Þetta þarf að gera og þarf að gera strax.“