Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ætlar ekki að bregðast við atvinnuleysi að svo stöddu

23.12.2019 - 20:01
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Félagsmálaráðherra ætlar ekki að bregðast við auknu atvinnuleysi að svo stöddu. Atvinnuleysi hefur aukist um þriðjung á þessu ári og mælist nú rúm fjögur prósent.

Atvinnuleysi hefur ekki verið meira í fimm ár. Nærri fjörutíu prósent þeirra sem eru á atvinnuleysisskrá eru útlendingar.

„Við höfum verið í samtali við Vinnumálastofnun hvort ástæða sé til að fara í sértækar aðgerðir. Að svo stöddu hefur ekki verið tekin ákvörðun um slíkt en við höfum verið að skoða það. Ég á von á því að við sjáum snemma á nýju ári hvort almennar aðgerðir skili sér ef ekki þá munum við skoða sérstakar aðgerðir,“ segir Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra. Hvaða sértæku aðgerðir eru það? „Það eru bara sambærilegar aðgerðir og við höfum farið í áður í sögunni þegar svona atburðir koma upp, ríkisstjórnin hefur rætt það varðandi menntamál og fleira.“

Ásmundur segir að reynt hafi verið að byggja upp vinnumarkaðinn eftir fall WOW. Atvinnuleysi hefur aukist um þriðjung á þessu ári og kemur verst niður á Suðurnesjum sem forstjóri Vinnumálastofnunar segir sérstakt áhyggjuefni. Þar er atvinnuleysi hlutfallslega langmest eða 8,4%. „Hagspár eru að spá því að hagkerfið fari að rísa á nýjan leik og það þekkjum við. Við höfum verið að fylgjast með því hvort að það þurfi eitthvað meira til umfram það,“ segir Ásmundur jafnframt.

 

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV