Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Ætlar að stofna nýtt flugfélag á grunni WOW

04.04.2019 - 12:37
Mynd með færslu
 Mynd:
Skúli Mogensen stofnandi flugfélagsins WOW air reynir nú að afla fjár til að endurreisa flugfélagið. WOW var tekið til gjaldþrotaskipta í síðustu viku. Þetta kemur fram í fjárfestakynningu. Skúli og stjórnendur ætla að eiga 51 prósent en fjárfestar leggja nýju félagi til 40 milljónir dollara - 49 prósent hlutafjár.

Fréttablaðið greindi fyrst frá málinu á vef sínum.

Í fjárfestakynningu, sem dagsett er í gær og fréttastofa hefur undir höndum, segir að stefnt sé að því að hafa lággjaldastefnu í hávegum, líkt og á fyrstu árum Wow air. Skúli sagðist í bréfi til fjölmiðla í gær líklega hafa tapað fjórum milljörðum á falli WOW. „Teymið lærði af biturri reynslu hvernig ætti ekki að gera hlutina,“ segir í fjárfestakynningunni.

Félagið stefnir að því að vera með fimm flugvélar sem er það sama og WOW var með fyrir fjórum árum þegar það skilaði hagnaði. Það ætlar að fjúga til staða eins og Lundúna, Parísar, Amsterdam og Berlín en líka New York og Boston. Það geri síðan ráð fyrir að vera komið með sjö vélar á næsta ári og tíu vélar árið 2021.

Skúli og stjórnendurnir ætla að eiga 51 prósent í nýja flugfélaginu en fjárfestar sem leggja því til 40 milljónir bandaríkjadala, 49 prósent hlutafjár. Fréttablaðið greinir frá því að fyrstu tólf vikurnar ætli nýja flugfélagið að sinna leiguverkefnum fyrir evrópskt flugfélag.

WOW air varð gjaldþrota fyrir viku síðan. Reksturinn hafði verið erfiður síðustu misseri og stjórnendur leitað eftir fjárfestum. Fyrirtækið tapaði 22 milljörðum á síðasta ári. Skúli sagði í samtali við fréttastofu, stuttu eftir að viðræður við mögulega fjárfesta runnu út í sandinn, að tíminn hafi runnið út án þess að tekist hafi að tryggja fjármögnun. 

Fréttin hefur verið uppfærð.