Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ætlar að létta fyrirtækjum „þetta erfiða skeið“

10.03.2020 - 11:59
Mynd: RÚV / RÚV
Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun aðgerðir til að bregðast við kólnun í íslensku efnhagslífi og áhrifum af COVID-19 veirunni. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sagði þetta fordæmalausar aðstæður þar sem óvissan væri mikil. Fjármálaráðherra hefur sent forseta Alþingis bréf þar sem hann var upplýstur um að forsendur fjármálastefnunnar væru brostnar og að von væri á nýrri áætlun um miðjan maí.

Katrín, Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra, kynntu tillögurnar á fundi í Ráðherrabústaðnum í morgun. Þær fela það meðal annars í sér að veita á fyrirtækjum sem lenda í tímabundnum rekstrarörðugleikum lengri fresti til að standa skil á sköttum og opinberum gjöldum.

Ferðaþjónustan finnur aðallega fyrir atburðunum

Fjármálaráðherra sagði að það væri aðallega ferðaþjónustan sem myndi finna fyrir þessum atburðum. Hafa yrði í huga að þetta væri tímabil sem gengi yfir og við tækju eðlilegar tímar. Þá sagði Bjarni að það væri til skoðunar að opna að fella tímabundið niður gjöld og skatta sem gætu reynst íþyngjandi fyrir ferðaþjónustufyrirtæki. Í yfirlýsingu sem birtist á vef Stjórnarráðsins kemur fram að þar sé sérstaklega verið að horfa til gistináttaskattsins. 

Þegar er hafið samstarf við fjármálageirann því stjórnvöld vilja tryggja að greiðar boðleiðir séu á milli og gerð er krafa um að „menn séu skipulagðir um að veita lífvænlegum félögum súrefnis em eiga við lausafjárskort að stríða ,“ sagði Bjarni.

Þá á að ráðast í stórt markaðsátak þegar ský hefur dregið frá sólu, eins og fjármálaráðherra orðaði það, þar sem Ísland verður auglýst sem ákjósanlegur áfangastaður auk þess sem Íslendingar verða hvattir til að ferðast innanlands. 

30 milljarðar í aukið svigrúm banka og lánadrottna

Aukinn kraftur verður settur í framkvæmdir á vegum opinberra aðila á yfirstandandi ári og þeim næstu. Innstæður ÍL-sjóðs í Seðlabankanum verða fluttar á innlánsreikninga í bönkum til að styðja við svigrúm banka og lánadrottna til að veita viðskiptamönnum sínum lánafyrirgreiðslu. Fram kom á fundinum að þetta væru um 30 milljarðar.

Katrín  sagði í lokin að hún teldi viðnámsþrótt stofnana til að takast á við COVID-19 mjög mikinn. Miklu skipti að Íslendingar byggju að mikilli reynslu til að takast á við ófyrirséða hluti. „Ég held að viðnámsþróttur samfélags okkar sé það sem muni skipta máli í þessari klemmu sem við munum sigrast á.“ Þetta væru fordæmalausar aðstæður og óvissan væri mikil.

„Við erum að gera þetta til að reyna að taka utan um þennan vanda," sagði Sigurður Ingi Jóhannsson. Heilbrigðiskerfið gæti tekið utan um heilbrigðisvána. Aðgerðir ríkisins væru til að taka utan um fyrirtækin í landinu og stjórnvöld myndu kalla eftir samstarfi við sveitarfélög og fyrirtæki í landinu. Áhersla væri lögð á gott samstarf og góð viðbrögð. „Þá er staða okkar býsna góð þegar því er lokið.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV