Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ætlar að halda 25 ára afmælishátíð Uxa

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot úr heimildarmynd

Ætlar að halda 25 ára afmælishátíð Uxa

06.08.2019 - 17:29

Höfundar

Kristinn Sæmundsson, einn af aðstandendum tónlistarhátíðarinnar Uxa sem var haldin 1995 segist vera kominn með stað til að halda 25 ára afmælishátíð á næsta ári.

Þetta kemur fram á vefnum albumm.is þar sem haft er eftir Kristni, sem oft hefur verið kenndur við plötubúðina Hljómalind eða einkennismerki hennar kanínu, að hann hyggist halda afmælishátíð á næsta ári. Uxi sem var haldinn á Kirkjubæjarklaustri um Verslunarmannahelgina 1995 var fyrsta íslenska tónlistarhátíðin þar sem þekktir erlendir tónlistarmenn voru í aðalhlutverki. Þá var hún líka til marks þá miklu raftónlistarbylgju sem reið yfir Ísland á fyrri hluta tíunda áratugarins sem kom einna helst frá Bretlandi.

Meðal þeirra sem komu fram á Uxa voru Björk, Aphex Twin, The Prodigy, Drum Club, Atari Teenage Riot, Unun, Páll Óskar, T-World og Bubbleflies. Hátíðin virðist hafa gengið stórslysalaust fyrir sig þótt 20-30 fíkinefnamál hafi komið upp, en lögregla hélt því fram að fíkniefnasalar hefðu flúið af hátíðarsvæðinu vegna mikils sýnileika lögreglu. Um 4.000 manns keyptu miða á hátíðina sem var líklega nokkuð undir væntingum, hátíðin var í það minnsta ekki haldin aftur árið eftir, þótt mikið hefði verið rætt um að það stæði til. Heimildarmynd um hátíðina var gerð á sínum tíma af þeim Kristófer Dignusi, Arnari Knútssyni og Erni Marínó Arnarsyni sem má sjá hér fyrir neðan.

Tengdar fréttir

Tónlist

Framvörður kynslóðar hættir að dansa

Tónlist

Töldu liðsmenn Prodigy smygla dópi til Íslands

Tónlist

Aphex Twin lætur á sér kræla

Tónlist

Ástarbréf til táningsára raftónlistarinnar