Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ætla í mál vegna þriðja orkupakkans

17.04.2018 - 17:17
Mynd: Arnar Páll Hauksson / Arnar Páll Hauksson
Samtökin Nei til EU, andstæðingar Evrópusambandsins í Noregi, telja að samþykkt norska þingsins um að innleiða svokallaðan þriðja orkupakka ESB brjóti gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar. Þau hafa hafið söfnun til að standa straum af kostnaði við réttarhöld vegna málsins. Bæði Noregur og Liechtenstein hafa samþykkt tilskipun ESB og nú er beðið eftir því hvaða afstöðu Íslendingar taka. Ef Ísland hafnar tilskipuninni gæti allur viðaukinn um orkumál í EES samningnum frestast til bráðabirgða.

Ósáttir við málsmeðferðina.

Málið var og er mjög umdeilt í Noregi. Verkalýðshreyfingin var á móti, norski Miðflokkurinn og SV systurflokkur Vinstri grænna. Í Noregi snerist megingagnrýnin um að innleiðingin  fæli í sér afsal á fullveldi yfir orkuauðlindum landsins. Þegar um slíkt er að ræða er hægt, samkvæmt ákvæði stjórnarskrárinnar, grein 115, að krefjast þess að aukinn meirihluti þingsins þrír, fjórðu hlutar þurfi til að samþykkja. Dómsmálaráðuneytið og stjórnvöld töldu að afsalið væri lítið og því gilti þetta ákvæði ekki í þessu tilfelli. Og nú vilja samtökin gegn ESB láta reyna á þetta fyrir dómstólum. Norski Miðflokkurinn, systurflokkur Framsóknarflokksins, krafðist aukins meirihluta þegar atkvæði voru greidd á Stórþinginu. Sigbjørn Gjeldsvik, þingmaður flokksins, segir að fjölmargir sérfræðingar hafi líka verði þeirrar skoðunar.

Stórþingið ákvað að horfa fram hjá þeim ábendingum. Við teljum að það hafi verið alvarlegt brot á málsmeðferðinni.

Sameiginlegi orkumarkaðurinn

Þriðji orkupakkinn lýtur að sameiginlegum orkumarkaði innan evrópska efnahagssvæðisins. EFTA löndin þrjú: Ísland, Liechtenstein og Noregur hafa þegar samþykkt fyrri tilskipanir. Í þriðja pakkanum er gert ráð fyrir sameiginlegri orkustofnun eða eftirlitsstofnun ESB sem á að fylgjast með að fyrirtæki sem tengjast orkumarkaðinum fari eftir reglum. Ef ágreiningur kemur upp getur stofnunin tekið af skarið og ákvarðað í deilumálum. Norðmenn telja að í því felist framsal á fullveldi. Reyndar munu öll mál sem tengjast þessari stofnun ACER fara í gegnum eftirlitsstofnun EFTA, ESA.

Beðið eftir Íslandi

En nú er horft til Íslands. Málið er á málaskrá ríkisstjórnarinnar yfir mál sem leggja á fram á vorþingi. Samkvæmt svari utanríkisráðuneytisins hefur ekki verið ákveðið hvenær málið verður lagt fram. Til að tilskipunin öðlist gildi verða öll EFTA löndin þrjú að samþykkja. Miðað við afstöðu stjórnarflokkanna gæti verið meirihluti gegn tilskipuninni á Alþingi. Það hefur ekki gerst áður að eitt land hafni tilskipun frá ESB. Sigbjørn segir að það hafi ekki gerst í þau 24 ár sem EES samningurinn hefur verið í gildi. Hins  vegar sé ljóst að neitunarvaldið sé í höndum hvers lands.

Það er kveðið á um þennan rétt í samningnum og ég held að það sé ástæðan fyrir því að það var meirihluti fyrir þessu á sínum tíma.

Andstæðingar tilskipunarinnar í Noregi bíða spenntir eftir því hvernig afgreiðslu málið fær hér á landi. Það myndi þýða að umræður hæfust á nýjan leik um það í Noregi. Stuðningsmenn eru ekki mjög hrifnir af því að Ísland segi nei ekki síst í ljósi þess að Ísland tengist ekki hinum sameiginlega orkumarkaði í Evrópu. Þó nokkuð margir sæstrengir liggja hins vegar frá Noregi og tengjast ESB. En hvers vegna er Miðflokkurinn á móti? Sigbjørn segir að flokkurinn sé alls ekki andvígur samvinnu á sviði orkumála.

Það sem er nýtt í tengslum við orkustofnunina ACER er að hún getur tekið ákvarðanir í ágreiningsmálum sem ganga þvert á hagsmuni Noregs. 

Andstæðingar tilskipunarinnar hafa reyndar fullyrt að ACER geti gefið fyrirmæli um virkjanir og lagningu sæstrengja en það á ekki við rök að styðjast. Sigbjørn bendir á að ESB vinni að því að byggja upp raforkusamband þar sem orkuverð verði nánast það sama og geti að hámarki munað um tveimur evrum fyrir kílóvattstundina. Stefnt sé að því að útrýma svokölluðum flöskuhálsum í orkuflæðinu sem mun þrýsta á Noreg að leggja fleiri sæstrengi og það muni valda hækkun á orkuverði. Það hafi svo áhrif á samkeppnisstöðu iðnaðarfyrirtækja í Noregi.

Vilja Noreg út úr EES

Miðflokkurinn hefur alla tíð verið á móti inngöngu Norðmanna Í Evrópusambandið. Aðild hefur tvívegis verðið felld í þjóðaratkvæðagreiðslu í Noregi. Í fyrra skiptið 1972 og svo 1992. Rúm 52% voru á móti 92 og tæp 48 prósent voru hlynnt aðild. Það kemur því ekki á óvart að Miðflokkurinn sé á móti þriðja orkupakkanum. Sigbjørn bendir á að andstaðan hafi bæði verið meðal stuðningsmanna ESB og þeirra sem eru andvígir aðild. Flokkurinn hefur verið andvígur EES samningnum frá upphafi en hefur nú lagt meiri þunga í baráttuna fyrir því að Noregur segi skilið við EES samstarfið.

Við sjáum nýja möguleika í tengslum við útgöngu Breta úr ESB og þess að þeir geri nýjan samning við Evrópusambandið. Að við getum hugsanlega gert betri og lýðræðislegri samning en EES samningurinn er.

Hann segir að Noregur hafi langa reynslu af því að starfa með Evrópusambandinu og vera í viðskiptasambandi við það og fleiri lönd.

Acer hefur lítil áhrif hér

En aftur að þriðja orkupakkanum. Spurningin nú snýst um afstöðu Alþingis til málsins. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið birti í dag minnisblað um áhrif orkupakkans frá Ólafi Jóhannesi Einarssyni lögmanni sem starfaði áður sem framkvæmdastjóri markaðssviðs ESA. Hans niðurstaða er að þriðji orkupakkinn breyti í engu heimildum íslenskra stjórnvalda að banna framsal á eignarrétti að orkuauðlindunum.

Ísland mun áfram hafa fullt ákvörðunarvald yfir með hvaða skilyrðum orkuauðlindir hér eru nýttar og hvaða orkugjafar eru nýttir.

ACER hefði engin áhrif á leyfisveitingar og stjórnsýslu hér á landi né heldur valdheimildir gagnvart einkaaðilum. Valdheimildirnar gagnvart EFTA löndunum verða hjá eftirlitsstofnun EFTA, ESA en ekki hjá ACER.  

Heimildir ACER að taka bindandi ákvarðanir ná einungis til orkumannvirkja sem ná yfir landamæri. Og þriðji orkupakkinn haggar ekki forræði Íslands að ákveða lagningu sæstrengs og að íslenska ríkið yrði eigandi hans.

Allur orkumálapakkinn gæti frestast

Bæði Noregur og Liechtenstein hafa aflétt svokölluðum stjórnskipulegum fyrirvara sem sameiginlega EES nefndin gerði vegna þriðja orkupakkans. Geri ísland það ekki eða með öðrum orðum hafni innleiðingu gerðarinnar mun innleiðingin frestast líka hjá hinum ríkjunum. Í ljósi þess að það hefur ekki áður gerst að EFTA ríki hafni innleiðingu segir lögmaðurinn að ekki sé hægt að fullyrða um lögfræðilegar afleiðingar. Hins vegar megi leiða að því líkum að allur viðaukinn um orkumál eða framkvæmd allra gerða sem samþykktar hafa verið hingað til muni frestast til bráðabirgða.