Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Ætla ekki að hefja formlegar viðræður

01.12.2016 - 14:24
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV/samsett mynd
Bjarni Benediktsson og Katrín Jakobsdóttir hafa ákveðið að hefja ekki formlegar viðræður um myndun nýrrar ríkisstjórnar. Þetta staðfesti Katrín í samtali við fréttastofu. Hún segir að staðan sé snúin og hún útilokar ekki að komið sé að þeim tímapunkti að mynda breiða þjóðstjórn. Katrín segir að það hafi ekki steytt á neinu ákveðnu í viðræðum þeirra Bjarna - það sé einfaldlega of langt á milli þessara tveggja flokka.

Katrín segir ekkert ákveðið hvort hún ætli að ræða við hina flokkana fjóra en í hádegisfréttum RÚV var greint frá því að Viðreisn, Píratar, Björt framtíð og Samfylking hefðu tekið upp óformlegar viðræður. Og vildu fá Katrínu inn í þær viðræður Hún segir sjálf að slíka aðkomu þurfi að ræða fyrst í þingflokknum.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hefur sett pressu á formenn stjórnmálaflokkanna að þeir nái saman um myndun nýrrar ríkisstjórnar. Í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér í síðustu viku sagðist hann vænta þess að um síðustu helgi eða byrjun þessarar viku „í síðasta lagi hafi línur skýrst og unnt verði að ákveða næstu skref í þessum stjórnarmyndunarviðræðum.“ 

Eftir að Katrín og Bjarni greindu forsetanum frá óformlegum viðræðum þeirra tveggja í vikunni sendi Guðni einnig frá sér yfirlýsingu. Þar sagðist hann fylgjast náið með þróun þessara viðræðna og vænti þess að komist yrði að niðurstöðu um myndun nýrrar ríkisstjórnar innan skamms.

Ákvörðun Bjarna og Katrínar þýðir að formlegar og óformlegar stjórnarmyndunarviðræður hafa farið í einn hring - reynd hefur verið ríkisstjórn frá miðju og til hægri í formlegum stjórnarmyndunarviðræðum Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks. Og frá miðju til vinstri þegar VG, Samfylking, Píratar, Björt framtíð og Viðreisn reyndu formlegar stjórnarmyndunarviðræður en án árangurs.

Einn flokkur hefur staðið utan við formlegar og óformlegar viðræður frá því að úrslitin í þingkosningunum voru ljós  - Framsóknarflokkurinn.  

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV