Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Ætla ekki að blása samræmdu prófin af

16.03.2017 - 14:30
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ekki eru uppi neinar fyrirætlanir af hálfu mennta- og menningarmálaráðuneytisins um að leggja niður eða breyta tilgangi samræmdra könnunarprófa í grunnskólum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ráðuneytinu. Þó hefur verið ákveðið að kalla saman fulltrúa alla helstu aðila skólastarfs í grunnskólum til að fara yfir framkvæmd prófanna.

Grunnskólakennarar hafa gagnrýnt að samræmd próf skuli ekki vera einungis stöðupróf, eins og þeim er ætlað að vera samkvæmt reglugerð, heldur sé framhaldsskólum heimilt að nota niðurstöður prófanna til að velja inn nemendur sem sækja um skólavist. 

Í tilkynningu ráðuneytisins í dag segir að mikilvægt sé að átta sig á því að verið sé að gera miklar breytingar á kerfinu með því að innleiða rafræn próf, auk þess sem unnið sé að því að gera þau einstaklingsmiðuð. Þegar það komist til framkvæmda muni samræmdu könnunarprófin gefa betri mynd af stöðu nemandans en áður. 

Formaður Allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis hafi hins vegar átt fund með mennta- og menningarmálaráðherra þar sem formaðurinn kom sjónarmiðum og áhyggjum nefndarmanna um framkvæmd prófanna á framfæri við ráðherra. Það hafi verið sameiginleg niðurstaða þeirra að ráðuneytið boðaði á næstu dögum fulltrúa Menntamálastofnunar, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Kennarasambands Íslands, Skólameistarafélags Íslands, Ungmennaráðs Menntamálastofnunar, Heimilis og skóla og Skólastjórafélags Íslands til samráðs þar sem aðilar fari yfir framkvæmd prófanna og ræði mögulegar úrbætur.

Meðal þess, sem þessum samráðsvettvangi er ætlað að ræða, er hvort  kynningar á könnunarprófunum hafi verið fullnægjandi.

Jákvæð þróun

Tilkynning ráðuneytisins er svohljóðandi:

 Mikil umræða hefur verið að undanförnu um framkvæmd samræmdra könnunarprófa og breytingar á reglugerð um innritun nýnema í framhaldsskóla. Í því sambandi er mikilvægt að átta sig á að það er verið að gera miklar breytingar á kerfinu með því að innleiða rafræn próf og svo er jafnframt verið að vinna að því að gera þau einstaklingsmiðuð. Þegar það kemst til framkvæmda munu samræmdu könnunarprófin gefa betri mynd af stöðu nemandans en áður. Með því að færa samræmdu könnunarprófin í 9. bekk gefst færi á því að taka mið af niðurstöðunum við skipulagningu námsins í 10. bekk. Niðurstöður prófanna verða þannig betra tæki fyrir nemandann, aðstandendur hans og kennarann til að ákveða hvernig megi bæta árangur nemandans ef svo ber við eða til að athuga hvort frammistaðan gefi honum ástæðu til að hlaupa yfir 10. bekk.

Formaður Allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis átti fund með mennta- og menningarmálaráðherra 14. mars sl. þar sem formaðurinn kom sjónarmiðum og áhyggjum nefndarmanna um framkvæmd samræmdu könnunarprófanna á framfæri við ráðherra. Það var sameiginleg niðurstaða þeirra að ráðuneytið boðaði á næstu dögum fulltrúa Menntamálastofnunar, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Kennarasambands Íslands, Skólameistarafélags Íslands, Ungmennaráðs Menntamálastofnunar, Heimilis og skóla og Skólastjórafélags Íslands til samráðs þar sem aðilar fari yfir framkvæmd prófanna og ræði mögulegar úrbætur.

Meðal þess, sem þessum samráðsvettvangi er ætlað að ræða, er hvort  kynningar á könnunarprófunum hafi verið fullnægjandi og í því sambandi einnig tilgangur og þróun þeirra, og hvernig staðið var að fræðslu og kynningum í hverjum skóla fyrir sig. Þá verður farið yfir tæknilega framkvæmd könnunarprófanna, þ.á m. um mismunandi prófútgáfur og hvernig skólarnir nýttu sér æfingaprófin, sem aðgengileg voru. Þess er vænst að niðurstöður umræðna og samráðs leiði til jákvæðrar þróunar og samstöðu um framkvæmd samræmdu könnunarprófanna í framtíðinni.

Þá ber þess að geta að þegar hefur verið óskað eftir tilnefningum í þriggja manna sérfræðingahóp, sem meðal annars skal fylgjast með framkvæmd og þróun samræmdra könnunarprófa og gert er ráð fyrir að hann verði skipaður fyrir lok mánaðarins.

Ekki eru uppi neinar fyrirætlanir af hálfu ráðuneytisins um að leggja niður eða breyta tilgangi samræmdra könnunarprófa í grunnskólum. Ætlunin er að þróa þau svo þau þjóni betur hlutverki sínu og mæta þannig gagnrýni á innihald, form og framkvæmd þeirra. Niðurstöður prófanna veita miklar upplýsingar og greinandi gögn um hvern nemenda og einnig skóla, og næsta viðfangsefnið er hvernig hægt er að nýta þessi gögn til að efla skólastarf og styðja við nám nemenda.