Ætla að krefja ríkið bóta vegna kyrrsetningar

06.02.2019 - 11:09
Mynd með færslu
 Mynd:
Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður Björns Inga Hrafnssonar, segir það liggja í augum uppi að ríkið verði krafið bóta vegna rannsóknar skattrannsóknarstjóra á málum Björns Inga. Skattrannsóknarstjóri hefur hætt rannsókn sinni á skattskilum og bókhaldi hans en hann hafði verið grunaður um skattaundanskot vegna reksturs DV.

Spurður hvort það standi til að fara í mál við ríkið vegna rannsóknarinnar segir Sveinn Andri að það liggi í augum uppi, enda hafi kyrrsetning á eignum Björns Inga valdið honum miklu tjóni. Tollstjóri óskaði eftir kyrrsetningunni í tengslum við rannsókn skattrannsóknarstjóra.

Þó rannsókn skattrannsóknarstjóra hafi verið hætt hefur tollstjóri, sem var kyrrsetningarbeiðandi, ekki enn fellt kyrrsetninguna á eignum Björns Inga niður. Sveinn Andri segir fyrstu skref vera að fara yfir málið með ríkislögmanni og kanna hvort ríkið vilji koma til móts við Björn Inga vegna þess tjóns sem hann hefur orðið fyrir.

„Núna er búið að fella málið niður, sem var viðbúið enda einfaldar skýringar á þeim málum sem skattrannsóknarstjóri var að skoða,“ segir Sveinn Andri í samtali við fréttastofu. Hann segir ábendingarnar til skattrannsóknarstjóra hafa verið tilhæfulausar og þess vegna hafi rannsókninni verið hætt.

Rannsóknin hófst í fyrra og náði til bókhalds og skattskila Björns Inga tekjuárin 2014 til og með 2017. Á meðan rannsókninni stóð kyrrsetti sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu eignir Björns Inga að beiðni tollstjóra. Verðmæti kyrrsettra eigna hans hljóðuðu upp á 115 milljónir króna.

 

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi