Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ætla að hópfjármagna endurreist flugfélag

08.04.2019 - 12:47
Mynd með færslu
 Mynd:
Skúli Mogensen, fyrrverandi forstjóri WOW air, og nokkrir lykilstarfsmenn flugfélagsins sem varð gjaldþrota fyrir skemmstu, reyna nú að endurreisa félagið með hópfjármögnun á netinu. Þetta staðfesti Skúli við fréttastofu.

„Ég hef fengið óheyrilega jákvæð viðbrögð frá almenningi, út um allt land. Og hvatningu til þess að bjóða almenningi til að taka þátt í þessu með okkur,“ sagði Skúli þegar fréttastofa náði tali af honum fyrir hádegi.

Sagt var frá endurreisnartilraun Skúla og félaga í síðustu viku. Fréttablaðið sagði frá því í morgun að fjármögnun nýs félags um rekstur lágfargjaldaflugs byggði að einhverju leyti á hópfjármögnun á erlendri vefsíðu. Skúli vildi ekki segja hver sú vefsíða væri.

Samkvæmt umfjöllun í Fréttablaðinu vilja Skúli og félagar fá allt að 670 milljónir króna, andvirði fimm milljóna evra, með þessari leið. Lægstu framlög sem hægt verður að leggja til verði um 200-250 þúsund krónur.

Ekki er ljóst hvað styrktaraðilar eiga að fá í staðinn, en hefð er fyrir því að styrktaraðilar fái fyrstir vöru eða þjónustu frá fyrirtæki sem fjármagnað er, eða eignist jafnvel hlutafé með styrknum.

Í frétt Fréttablaðsins er því einnig haldið fram að skiptastjórar þrotabús WOW air hafi tekið vel í hugmyndir um að endurreista félagið taki yfir kröfur um 200 starfsmanna um vangoldin laun.

Þorsteinn Einarsson, annar skiptastjóranna, segir málin ekki vera komin það langt að hægt sé að leggja mat á hugsanlegt tilboð nýs félags. „Auðvitað skiptir það máli ef einhver vill kaupa af okkur eignir, hvort hann taki yfir forgangskröfur sem yrðu lýstar í búið. Það skiptir máli.“

„Þú getur reiknað upp í verð ef forgangskröfur eru greiddar af öðrum en búinu. Og það hefur áhrif þegar þetta er lagt saman hversu mikið fæst fyrir eignir búsins,“ segir Þorsteinn.

Nú þegar hafa borist kröfulýsingar í þrotabúið en frestur til þess er nokkuð langur, um fjórir mánuðir. Þorsteinn segist búast við mörgum og háum kröfum í búið. Byrjað er að selja eignir út úr búinu, eins og tölvur og skrifstofubúnað. Reynt er að gera það hratt. Spurður hver helstu verðmætin í búinu séu segir Þorsteinn þau liggja í hugbúnaði og sértækari búnaði til flugrekstrar.

Þegar WOW air varð gjaldþrota skuldaði félagið Isavia að því er talið er 1,8 milljarða króna fyrir lendingar-, flugleiðsögu- og farþegagjöldum á Keflavíkurflugvelli. Isavia hefur ekki viljað staðfesta þessa upphæð en víst er að skuldin er há.

Til þess að tryggja heimtur á þessum ógreiddu gjöldum beitti Isavia heimild til þess að kyrrsetja eina af flugvélunum sem WOW leigði til rekstursins. Vélin er í eigu Air Lease Corporation og hefur staðið á Keflavíkurflugvelli síðan 18. mars síðastliðinn. Við gjaldþrot WOW air færði Isavia skuldina á eignarhaldsfélag flugvélarinnar sem fær hana ekki fyrr en skuldin hefur verið greidd.

Viðræður Isavia við Air Lease Corporation standa enn, að sögn Guðjóns Helgasonar, upplýsingafulltrúa Isavia.