Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Ætla að hafna málefnasamningi flokkanna

Mynd: RUV / RUV
Andrés Ingi Jónsson og Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmenn Vinstri grænna, ætla ekki að greiða atkvæði með nýjum málefnasamningi Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokksins. Andrés Ingi segir lítið nýtt í nýjum samningi flokkanna.

Flokksráð Vinstri grænna kom saman til fundar á Grand hóteli í kvöld. Fundurinn stendur enn en þar eru á annað hundrað flokksmenn að ræða málefnasamning flokkanna þriggja. Miðstjórn Framsóknarflokksins kemur saman síðar í kvöld en fyrr í dag samþykkti flokksráð Sjálfstæðisflokksins málefnasamninginn. 

Andrés Ingi segist hafa vonast eftir meiru í samningnum. „Eftir að hafa legið yfir þessum málefnasamningi þá lýsti ég því yfir að ég myndi ekki styðja hann. Mér finnst of lítið nýtt koma fram í honum sem ekki er í málefnasamningi fráfarandi ríkisstjórnar. Mér finnst þetta ekki sýna þann viðsnúning sem að ég hefði viljað sjá við það að Vinstri græn tækju við stjórnarráðinu sem hefði mögulega geta réttlætt það að styðja þennan samning,“ segir Andrés Ingi. Hann segist ætla að greiða atkvæði gegn honum og sömuleiðis Rósa Björk. Hún segir að málin verði frekar rædd á þingflokksfundi Vinstri grænna á morgun. Andrés segist treysta sér til að starfa áfram í flokknum þó þau samþykki ekki samninginn. Rósa segir að það eigi eftir að skýrast betur. „Það verður bara að koma í ljós í samtölum okkar við formanninn og þingflokksformanninn og líka hvað við ákveðum að gera sjálf,“ segir Rósa Björk. 

Andrés Ingi birti ræðu sína á flokksráðsfundinum á Facebook í kvöld. „Ég er sannfærður um að Katrín Jakobsdóttir verði stórfínn forsætisráðherra og ég óska henni alls hins besta í þeim verkefnum sem eru framundan, en ég er ekki sannfærður um að þetta sé rétta ríkisstjórnin fyrir hana eða Vinstri græn. Ég sé of mikla annmarka á stjórnarsáttmálanum og mun því ekki styðja hann.

Hann segir að stóru deilumálin þurfi að útkljá í samstarfssáttmála en það sé ekki gert í þessum. „Þó að ég viti að þingflokkur Vinstri grænna sé barmafullur af öflugu stjórnmálafólki, þá er ég ekki það bjartsýnn að ég trúi Vinstri grænum til að vera fólkið sem loksins tekst að gera Sjálfstæðisflokkinn að minni Sjálfstæðisflokki. (...) Í þriðja lagi þá óttast ég að Vinstri græn geti orðið samdauna samstarfsflokkunum – og þykir textinn sem liggur hér fyrir fundinum þegar bera þess merki. (...) Höfum við forsendur til að treysta flokknum sem spilaði með þolendur í málum sem tengdust uppreist æru og reyndi að þagga niður í þeim? Eigum við að ganga í samstarf við flokk sem braut lög við skipun dómara í Landsrétt? Er hægt að stóla á samkomulag við flokk sem síðast í september snérist gegn samkomulagi við þinglok og greiddi atkvæði gegn því að skjóta skjólshúsi yfir flóttabörn? Ég segi nei.“

 

 

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV