Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Ætla að fylgjast með framgangi Nordfront

01.08.2016 - 12:41
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu ætlar að fylgjast með framgangi nýnasistahreyfingarinnar Nordfront hér á landi og hvort málflutningur samtakanna varðar við almenn hegningarlög. Hreyfingin leitar að fylgismönnum hér á landi og var dreifibréfum frá hreyfingunni dreift í hús um helgina, meðal annars í vesturbæ Reykjavíkur.

Nordfront var stofnað árið 1997 í Svíþjóð af nýnasistum þar í landi, og eru samtökin einnig starfrækt í Finnlandi, Noregi og Danmörku. Eyrún Eyþórsdóttir, lögreglufulltrúi sem stýrir verkefni um hatrusglæpi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir að þar á bæ verði fylgst með framgangi samtakanna hér á landi.

„Mér sýnist þetta ekki vera félag sem búið er að stofna. Þeir eru greinilega að kanna hvaða grundvöll þeir hafa til stofnunar hérna. Og ég held að það sem við getum gert núna er að fylgjast með hvað verður úr þessu,“ segir Eyrún.

Getur verið að þarna sé eitthvað ólöglegt á ferðinni?

„Það er félagafrelsi á Íslandi og það má stofna félög. Og það má líka stofna svona félög. Þannig að það er ekki hægt að segja strax hvort þarna sé eitthvað ólöglegt. Ég held að svo sé ekki þarna eins og þetta lítur út núna. En það fer svolítið eftir málflutningi félagsins, hvort sá málflutningur mun varða við almenn hegningarlög eða ekki. Það mun væntanlega koma í ljós.“

Og þið munið fylgjast með því?

„Já ég held að það sé alveg hægt að segja það. Við munum fylgjast með þessu félagi,“ segir Eyrún.

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV