Ætla að bregðast hart við verðhækkunum

24.04.2019 - 16:02
Mynd: RÚV / RÚV
Breki Karlsson, formaður Neytendastamtakanna, segir að fyrirtæki geti ekki leynt verðhækkunum á tímum samfélagsmiðla. Neytendasamtökin hyggist bregðast hart við verðhækkunum og ætli að vekja athygli á þeim fyrirtækjum sem hækka vöruverð.

Vaxandi neytendavitund

Nokkur fyrirtæki á matvælamarkaði tilkynntu fyrir nokkru að þau ætluðu að grípa til verðhækkana ef kjarasamingarnir yrðu samþykktir. Heildsölufyrirtækið Ísam sem á Mylluna, Frón, Kexsmiðjuna og ORA tilkynnti að það ætlaði að hækka verð á vörum sínum um 3,9 prósent ef kjarasamningar yrðu samþykktir og verð á innfluttum vörum um 1,9 prósent. Gæðabakstur, Ömmubakstur og Kristjánsbakarí tilkynntu að þau ætluðu að hækka verð um 6,2 prósent og einnig hafa einhver hreingerningafyrirtæki tilkynnt að þau ætli að hækka verð á þjónustu sinni. Þessar tilkynningar hafa vakið hörð viðbrögð hjá verkalýðsforystunni og forsvarsmönnum Samtaka atvinnulífsins. Forseti ASÍ hvatti fólk til að sniðganga vörur þessara fyrirtækja og sagði að neytendavitund væri vaxandi hér á landi. Breki tekur undir þetta.

„Mín svona tilfinning er að við erum að verða miklu meðvitaðri um neytendamál almennt bæði fjölmiðlar og almenningur. Rannsóknir sýna reyndar að við stöndum okkur ágætlega þegar kemur að vitund um okkar rétt. Við vitum t.d. um skilarétt á vörum, um tveggja ára frest til að skila vörum og slíkt. Það sem hefur skyggt á okkar vitund er síbreytilegt vöruverð og við höfum um áratugaskeið búið við mikla verðbólgu í samanburði við nágrannalönd okkar. Þó að verðbólgan undanfarin ár hafi verið með minnsta móti sem við þekkjum þá er hún mun meiri en í flestum okkar nágrannalöndum. Það veikir okkar verðvitund en að öðru leyti erum við ekki að koma neitt síður út hvað varðar neytendavitund þ.e.a.s í rannsóknum.“

Ætla að vekja athygli á þeim sem hækka verð

Hins vegar skorti á alla umgjörð utan um neytendamál hér á landi ólíkt því sem gerist í nágrannalöndunum. Neytendasamtökin séu einu samtökin af þessu tagi á Norðurlöndunum sem ekki njóti beinna ríkisstyrkja. Neytendasamtökin ætla að vekja athygli á þeim fyrirtækjum sem hækka vöruverð vegna kjarasamninganna.

„Og við munum fylgjast grannt með þessu og bregðast harkalega við ef fyrirtæki ætla að hækka vöruverð því að þá erum við bara komin í gamalkunnugt höfrungahlaup sem allir vita að endar illa fyrir okkur öll. 
Hafa þeir, sem hafa haft samband við ykkur, áhyggjur af þessari stöðu? Auðvitað hafa félagsmenn áhyggjur af verðhækkunum. Menn voru að vona að þessir samningar væru hófstilltir þannig að ekki þyfti að koma til þessara hækkana. Það er það sem báðir viðsemjendur töldu sig vera að semja um. Við munum, Neytendasamtökin munu stíga fast til jarðar ef kemur til þessara hækkana.“  

„Það sem er líka nýtt núna er að með tilkomu samfélagsmiðla þá er þetta svo fljótt og verður svo sterkt þannig að þú getur ekki falið einhverjar verðhækkanir eða leynt þeim. Þetta er strax komið á samfélagsmiðlana og fólk heimtar svör bara um leið.“

Stjórnvöld ættu að setja sér neytendastefnu

Breki segir að Neytendasamtökin hafi kallað eftir stefnumótun í neytendapólitík.

„Það er náttúrlega pólitík hversu veik eða sterk Neytendasamtökin eru. Þetta er náttúrlega umgjörð sem okkur er sköpuð. Hún er búin til, hún verður ekki til í tóminu. Við höfum kallað eftir því að flokkar setji sér neytendastefnu. Hér á Íslandi hefur það til dæmis ekki tíðkast að stjórnvöld setji sér beina stefnu í neytendamálum  en það er kannski það fyrsta sem gerist þegar verið er að setja saman stjórn í nágrannalöndunum.“

Víða í nágrannalöndum okkar eru neytendamál liður í stefnuyfirlýsingu stjórnvalda og tekið er fram að neytendur verði hafðir í huga þegar teknar eru ákvarðanir um mál, lögum breytt eða ný sett.   

Neytendur ættu að vera í fyrsta sæti

„Við erum jú 350 þúsund neytendur á Íslandi. Við erum öll neytendur þegar allt kemur til alls. Þannig að okkur þykir það ekki ósanngjörn krafa að neytendur séu settir í fyrsta sæti þegar verið er að afgreiða einhver mál er varða okkur og það eru kannski flest mál sem varða neytendur.“ 

„Og við höfum af því spurnir og þekkjum það að hagsmunasamtök, – ja, Neytendasatökin eru hagsmunasamtök líka – en það eru önnur hagsmunasamtök fyrirtækja og við höfum haft af því spurnir og vitum af því að frumvörp til laga eru samin innan þeirra samtaka og síðan komið inn á þing og verða þannig að lögum. Og þetta þykja okkur ekki vinnubrögð sem eru okkur sæmandi sem þjóð. Við þurfum að setja neytendur í forgang.“

Heldur þú að neytendur núna bregðist við þessum fyrirtækjum og láti verða af því að sniðganga vörur?  Já ég er alveg fullviss um það og Neytendasamtökin munu styðja við bakið á okkar félagsmönnum við það að geta tekið upplýstar og meðvitaðar ákvarðanir um sín vörukaup í framhaldinu.“
 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi