Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Ætla að bæta símasamband

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Björn Ingi Jónsson, bæjarstjóri sveitarfélagsins Hornafjarðar, segir að vinna sé hafin við það að bæta úr símasambandi í Öræfasveit. Símasamband þar hefur verið stopult og lýstu íbúar áhyggjum vegna þess á fundum með almannavörnum 

Samkvæmt neyðaráætluninni sem kynnt var á fundum almannavarna og jarðvísindamanna með íbúum kom fram að mögulega þurfi að bregðast hratt við ef eldgos hefst. Allir sem eru á hættusvæðinu fái þá SMS-skilaboð sem segir að eldgos sé yfirvofandi og að fólk eigi að fara stystu leiða að þremur bæjum sem taldir eru öruggir fyrir flóðum.
 
Svínafell er einn af þeim bæjum þar sem fólk á að safnast saman ef rýma þarf í skyndi og eins og víða annarsstaðar í Öræfasveit er símsamband mjög mismunandi og stopult. Gott símasamband er á hlaðinu við bæinn en það dettur niður um leið og farið er inn í húsið. 

Ólafur Sigurðsson er ferðaþjónustubóndi í  Svínafelli 1: „Þú þarft oft að vera í gluggunum sem snúa í átt að endurvörpunum til þess að fá samband.“

Ólafur segir að stopult símsambandi sé áhyggjuefni oghafi líka áhrif á þá sem búi á þessum þremur lykil bæjum. Dæmi eru um að fólk í sveitinni fái SMS-skilaboð löngu eftir að það var sent.

„Við erum kannski ekki tilbúin ef að við erum annarstaðar í húsinu og fáum það ekki. Það hefur líka sýnt sig að við erum með mismunandi síma kona mín er með einn af þessum gömlu ég er með alveg nýjan og hún er stundum búin að fá sms-ið þetta hálftíma áður en ég er að fá það.“

Björn Ingi Jónsson, bæjarstjóri sveitarfélagsins Hornafjarðar, segir að vinna sé þegar hafin við að bæta úr og það sé mjög brýnt. „Bæði dreifingin og eins varaafl á þessum símasendum sem eru hér á svæðinu. Það þarf að tryggja að það endist hérna þó rafmagn fari.  Mér skilst að það sé komin í gang vinna með fjarskiptafyrirtækjunum um það.“

Einnig þurfi að laga útvarpsútsendinar til að hægt sé að koma upplýsingum þá leiðina til fólks. Leggja þurfi fram áætlanir um uppbyggingu símakerfisins og þetta þarf að gerast nokkuð hratt. „Jú við þurfum að vinna að þessu á næstu vikum og mánuðum að koma þessum fjarskiptum í gott form það er held ég ekki spurning.“
 
 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV