„Æskilegt að borgarfulltrúar geti borðað heima“

03.12.2019 - 08:13
Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Jónsson - Morgunvaktin
Forseti borgarstjórnar segir sjálfsagt að leita leiða vegna borgarstjórnarfunda. Kostnaður við síðustu tuttugu fundi borgarstjórnar nemur rúmum 17 milljónum eða 850 þúsund krónum á hvern fund. Inni í þeirri upphæð er matur frá Múlakaffi upp á 5,8 milljónir eða 295 þúsund á hvern fund og svo aðrar veitingar uppá 1,3 milljónir.

Það þýðir að á hverjum fundi er borðað og drukkið fyrir 15 þúsund krónur á hvern borgarfulltrúa. Aðstoðarmaður borgarstjóra segir þó að um 40 manns borði á borgarstjórnarfundum með varafulltrúum og öryggisvörðum. Það jafngildir um níu þúsund krónum í mat á mann.

„Þetta er náttúrulega kostnaður yfir heilt ár þannig að hann fer upp og niður í einhverjum tilfellum er um að ræða kostnað vegna funda sem eru aðeins fleiri. Eins og fundir í kringum fjárhagsáætlunargerð þar sem fleiri embættismenn mæta,“ segir Pawel Bartoszek, forseti borgarstjórnar.

Hann lagði fram fyrirspurn um kostnað við borgarstjórnarfundi vegna gruns um að kostnaður vegna þeirra hafi aukist. Pawel segir að ein leið til þess að lækka þennan kostnað væri að fundum borgarstjórnar ljúki fyrr.

„Já ég ímynda mér að við gætum lokið fundum fyrir klukkan 18 væri hægt að ná niðri kostnaði, til dæmis vegna kvöldmatar. Almennt séð væri æskilegt fyrir alla ef borgarfulltrúar gætu borðað heima með sínum nánustu og við þyrftum heldur ekki að borga fyrir yfirvinnu húsvarðar og annarra starfsmanna.“

Pawel segir að hann sem forseti borgarstjórnar muni nú bregðast við.

„En það má ekki gleyma því að þetta er lýðræði og við þurfum að vera meðvituð um að það er alltaf einhver kostnaður að halda uppi lýðræðislegri umræðu. Sá kostnaður er aldrei núll og við eigum ekki að stefna að því, en það er alltaf sjálfsagt að leita leiða til að lækka kostnað vegna funda.“

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV