Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ærumeiðingar verða ekki refsiverðar

Mynd með færslu
 Mynd: cc0 - pixabay
Dómsmálaráðherra hefur lagt fram frumvarp á Alþingi um bætur vegna ærumeiðinga. Það felur í sér að ærumeiðingar varða ekki lengur við hegningarlög og verða því ekki refsiverðar.

Ekki verður hægt að dæma einhvern til refsingar fyrir ærumeiðingar, ómerkingar ummæla og að greiða kostnað af birtingu dóms. Vernd sem opinberir starfsmenn, erlend ríki, fánar þeirra og þjóðhöfðingjar hafa notið fellur sömuleiðis úr gildi.

Á móti kemur að hægt verður að leita úrræða vegna ærumeiðinga með einkaréttarlegum úrræðum, það er, þeir sem telja sig hafa sætt ærumeiðingum geta sótt miskabætur eða bætur fyrir fjártjón til þess er lét ummælin falla.

Í greinargerð frumvarpsins segir að núverandi ástand standist illa stjórnarskrá og alþjóðaskuldbindingar. Bent er á að Mannréttindadómstóll Evrópu hefur ítrekað á undanförnum árum talið íslenska dómstóla hafa brotið gegn mannréttindasáttmála Evrópu með áfellisdómum sínum í meiðyrðamálum, eða alls sex sinnum á árunum 2012 til 2017.

Þá heyri til algjörra undantekninga að refsingar séu dæmdar vegna ærumeiðinga á meðan mun algengara sé að miskabætur séu dæmdar eða ummæli ómerkt.

 

Magnús Geir Eyjólfsson