Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Aðskilja þarf vinnu og frítíma

20.11.2012 - 13:00
Mynd með færslu
 Mynd:
Hætta er á því að fólk brenni fyrr út í starfi ef það nær ekki að aðskilja vinnu og frítíma. Þetta segir Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, prófessor í félagsfræði, um áhrif tækninnar á samspil fjölskyldu og atvinnulífs.

Fullt var út úr dyrum á morgunverðarfundi um samræmingu fjölskyldu og atvinnulífs sem haldinn var í boði Velferðarráðuneytisins, Jafnréttisstofu og Jafnréttisráðs. Guðbjörg Linda talaði þar um áhrif upplýsingatækninnar,  tölvu og síma, á samspil fjölskyldu og atvinnulífs. Sagði hún frá rannsóknum þar sem um 1.500 manns svöruðu spurningalistum og rætt var við um 60 manns, bæði starfsfólk og maka, um áhrif tækninnar á fjölskyldulíf.

Guðbjörg segir að bæði starfsfólki og mökum finnist gott að geta fært hluta af vinnunni með sér heim. Vinnudagurinn sé oft langur og gott að þurfa ekki að sitja á skrifstofunni fram á kvöld. Hins vegar sé hætta á því að vinnudagurinn lengist. Rannsóknir bendi til þess að það jafnvel auki líkur á starfsþroti, að fólk brenni út í starfi fyrr en ella vegna þess að það nái ekki að hlaða batteríin næilega vel, nái ekki að aðskilja vinnuna frá frítíma og frístundum á þann hátt sem æskilegt væri. Þess vegna sé mjög mikilvægt, ekki síst fyrir fyrirtæki sem að skaffi fólki tölvur og síma, að þau setji reglur um það hvernig starfsmenn nýti þessa tækni, nýti tölvupóstinn og tölvurnar.