Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Aðgerðir til varnar sjálfsvígum kynntar

04.05.2018 - 12:36
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Hreiðar Þór Björnsson - RÚV
Gott aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu er lykillinn að fækkun sjálfsvíga að mati starfshóps Landlæknisembættisins. Mikilvægt sé að stjórnvöld tryggi að þjónustan sé aðgengileg í nærumhverfi fólks en sömuleiðis þurfi að ryðja úr vegi hindrunum eins og löngum biðtíma og miklum kostnaði. Hópurinn telur einnig að takmarka þurfi aðgengi að hættulegum efnum, hlutum og aðstæðum til dæmis með endurskoðun reglugerða um vörslu skotvopna og um há mannvirki.

Þetta kemur fram í aðgerðaáætlun sem starfshópurinn skilaði velferðarráðuneytinu í gær.

Starfshópurinn tók til starfa 13. október í fyrra undir forystu Sigrúnar Daníelsdóttur, verkefnastjóra hjá Embætti landlæknis. Verkefni hópsins var að fara yfir gagnreyndar aðferðir til að fækka sjálfsvígum og sjálfsvígstilraunum ungmenna og velja leiðir til að innleiða hérlendis. Starfshópurinn var þó sammála um að skynsamlegra væri að beina sjónum að æviskeiðinu í heild þar sem tíðni sjálfsvíga hér á landi er lægst meðal unglinga en annars svipuð yfir öll fullorðinsárin.

Það er mat hópsins að mikilvægt sé að komið verði á fót föstum vettvangi fyrir uppbyggingu þekkingar og þróunar úrræða á þessu sviði, það sé mikilvæg forsenda fyrir því að varanlegur árangur náist í því að draga úr tíðni sjálfsvíga hér á landi. Horfa skuli til Norðmanna sem fyrirmynda á því sviði.

Tillögur í sex liðum

Tillögurnar eru settar fram í sex liðum án sérstakrar forgangsröðunar enda er litið svo á að þær styðji hver við aðra til þess að árangur náist til lengri tíma. Tilllögurnar snúa meðal annars að eflingu geðheilsu og seiglu í samfélaginu þar sem lögð er áhersla á að efla geðrækt og forvarnir í skólastarfi sem og á vinnustöðum. Hópurinn hvetur enn fremur öll sveitafélög landsins til að gerast heilsueflandi samfélög og vinna markvisst að því í öllu sínu starfi að hámarka líkur á farsælu og góðu lífi íbúa.

Hópurinn áréttar að gott aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu og gagnreyndum meðferðarúrræðum sé lykilatriði til að draga úr þeim skaða sem einstaklingar og samfélög annars hljóta af geðrænum vanda, þar með talið sjálfsvígshættu. Auka þurfi aðgengi að þjónustunni í nærumhverfi fólks til að stuðla að því að fólk leiti sér aðstoðar við geðrænum vanda og glati ekki voninni um bata. Brýnt sé að stjórnvöld ryðji úr vegi hindrunum eins og löngum biðtíma, miklum kostnaði og flækjustigi.

Auka þarf stuðning við eftirlifendur

Starfshópurinn segir að auka þurfi stuðning við aðstandendur og eftirlifendur þar sem meiri líkur séu á sjálfsvígum og sjálfsvígstilraunum meðal þeirra sem misst hafa nákomna í sjálfsvígum heldur en annarra hópa. Jafnframt sé nauðsynlegt að nýta þekkingu og reynslu til að fara yfir það hvað megi betur fara í þjónustunni.

Takmarka þarf aðgengi að hættulegum hlutum

Hópurinn segir jafnframt að ein árangursríkasta leiðin til að fækka sjálfsvígum felist í því að takmarka aðgengi að því sem reynst geti lífshættulegt, bæði á almannafæri og innan sjúkra- og meðferðarstofnana, sambýla og víðar. Í því sambandi þurfi að endurskoða reglugerðir varðandi til dæmis lyfjapakkningar og vörslu skotvopna. Einnig þurfi að endurskoða öryggisreglur varðandi há mannvirki, vélar og aðra staði sem og um slár, snaga, hurðarhúna og annað sem gæti verið notað til hengingar á hótelum, í búsetukjörnum og á sjúkra- og meðferðarstofnunum.