Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Aðgerðaáætlun í ellefu liðum

Mynd með færslu
 Mynd:
Jón Gnarr borgarstjóri kynnir í dag aðgerðir í ellefu liðum til að útrýma kynbundnum launamun hjá Reykjavíkurborg. Meðal annars á að endurskoða fasta yfirvinnusamninga. Tillögurnar eru byggðar á skýrslu aðgerðahóps um kynbundinn launamun sem skipaður var af borgarstjóra.

Sóley Tómasdóttir, oddviti Vinstri grænna í borgarstjórn, sem fór fyrir hópnum, segir að tillögurnar séu góðar og gildar og muni örugglega hafa einhver áhrif. Aftur á móti þurfi alltaf að beita handaflsaðgerðum á meðan misrétti þrífist í samfélaginu. „Ég held að þetta slái á muninn. Kannski dregur þetta úr honum. Kannski verður enginn kynbundinn launamunur eftir fimm ár en þá kem ég aftur að þessu, það krefst þess að við séum stöðugt á vaktinni, að það sé stöðugt einhver sem nennir að fylgjast með þessu, sem setur sig inn í þetta, sem fylgir því eftir, vegna þess að á meðan við erum svona skökk þá verður alltaf kynbundinn launamunur.“

Sóley segir að nú þurfi að meta alla launasamninga upp á nýtt sem rýri hugsanlega kjör karla: „Það gæti já orðið til þess ef að það kemur í ljós að einhverjir eru að fá greiðslur sem þeir eiga ekki að fá. Það er ekki þannig að það eigi að fara að lækka laun karla sem að þeir eru sannarlega að vinna sér fyrir.“